Eldkeilur teljat til svokallaðra megineldstöðva og gjósa því mörgum gosum og hlaða upp stórum eldkeilum eða hryggjum þar sem skiptast á gjósku- og hraunlög. Hvort eldstöðin hleður upp eldkeilu á borð við Snæfellsjökul og Eyjafjallajökul eða hrygg eins og Hekla fer líklega einkum eftir því hvort eldstöðin er á virku gliðnunarbelti eða ekki.


Keilur hlaðast upp á eins konar jaðarbelti (hliðarbelti) þar sem gliðnun jarðskorpunnar er óveruleg eða engin. Við slíkar aðstæður eru eldstöðvakerfin stutt og lítið eitt ílöng í NV - SA-stefnu. Hryggur með SV - NA stefnu eins og Hekla hleðst hins vegar upp á lítið eitt virku gliðnunarbelti.


Þekktustu eldkeilur íslenskar eru Öræfajökull, Snæfellsjökull ◊. og Eyjafjallajökull . Öræfajökull er hæsta og mesta nútíma eldfjall Íslands og jafnframt þriðja hæsta eldfjall Evrópu en Etna á Sikiley og Beerenberg á Jan Mayen eru hærri. Að rúmmáli kemur Öræfajökull næst Etnu og hann er a.m.k. fjórum sinnum rúmmálsmeiri en Snæfellsjökull. Vitað er um tvö gos í Öræfajökli á sögulegum tíma. Árið 1362 gaus hann mesta þeytigosi sem orðið hefur í Evrópu síðan Vesúvíus eyddi Pompei með miklu gosi árið 79 e.Kr. Slík gos eru oft nefnd plínísk eftir Pliny yngra sem lýsti Vesúvíusgosinu. Gosið í Öræfajökli eyddi allri byggð í Litlahéraði sem þá var og hét. Rúmmál gjóskunnar var líklega um 10 km3. Þetta var dasítgjóska og barst mestur hluti hennar á haf út. Aftur gaus Öræfajökull árið 1727 en miklu minna gosi. Í þetta sinn gaus fjallið basaltgjósku.


Dæmi um þekktar eldkeilur erlendis á sökkbeltum eru: Fuji ◊. í Japan, Popocatépetl í Mexíkó, Mayon á Filippseyjum, Llaima í Chile , El Misti í Perú, Cotopaxi og Chimborazo í Ecuador.


Hekla er ung jarðfræðilega séð en vafalítið frægasta íslenska eldfjallið. Hún hefur hlaðið upp hrygg á SV - NA-lægu sprungukerfi. Gossaga Heklu sýnir að kísilsýruhlutfall, (SiO2), kvikunnar sem hún gýs hækkar eftir því sem hléin milli gosa hjá henni eru lengri. Það bendir til þess að undir Heklu sé kvikuþró þar sem kvikan nær að breytast og auka kísilsýruhlutfall sitt á milli gosa.


Í töflu sést að hlutfall kísilsýru breytist frá byrjun goss til loka þess. Á Norðurlandi austan Héraðsvatna sést þetta vel á H4 en þar er neðri hluti lagsins ljós en efri hlutinn grá-brúnn til brún-svartur.


Sjá ennfremur Ol Doinyo Lengai sem er eldkeila í Austur-Afríku-sigdældinni.


Sjá ofureldstöðvar.