Hraun. Bráðin bergkvika sem rennur frá eldstöð eftir yfirborði jarðar og storknar þar nefnist hraun. Þau hlaðast hvert yfir annað þannig að yngsta hraunið er ávallt efst. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun flokkuð í apalhraun og helluhraun.


Apalhraun [aa] kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.


Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Laugahraun í Landmannalaugum og Hekluhraunin. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. við Lakagíga, Þrengslaborgir og Búrfell ofan Hafnarfjarðar.


Skaftáreldahraun sem upp kom í gosi í Lakagígum 1783 er dæmigert apalhraun. Það er næststærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma, 595 km2 að flatarmáli og 12 km3 að rúmmáli. Eldgjárhraun sem rann 934 til 940 er nú talið stærst en það er talið vera um 19,6 km3.


Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun, einkum ættuð frá dyngjum, mjög lagskipt og er ekki að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Þekktastir slíkra hella eru Surtshellir í Hallmundarhrauni og Raufarhólshellir í Þrengslum. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum.


Dæmigerðan þverskurð af helluhrauni má sjá í Almannagjá. Þar mynda 0,5 - 2 m þykk hraunbeltin eitt og sama hraunið sem er tugir metra á þykkt.


Helluhraun finnast víða en sem dæmigerð helluhraun má nefna Hallmundarhraun, Hvaleyrarhraun við Hafnarfjörð og Eldhraun norðan Mývatns sem rann í Mývatnseldum 1724 - 1729.


Sjá síðu um seigju kviku.


Sjá síðu um söguleg hraun á Reykjanesskaga og aldur nokkurra hrauna.


Til baka í föst gosefni.