Hraun á Reykjanesi

Hraun runnin á sögulegum tíma. Kort ÍSOR yfir hraun á Reykjanesskaga


Sjá töflu um aldur nokkurra hrauna.


Sjá síðu um umbrot og landris á Reykjanesskaga


Á Reykjaneshryggnum liggja þrepstiga eldstöðvakerfi ◊. og þar sem hann rís úr sæ við Reykjanes er syðsti hluti Reykjaneskerfisins. Austar eru svo kerfi Krýsuvíkur, Brennisteinsfjalla og Hengils. Öll eldsumbrot, sem þarna verða, tengjast gliðnunarhrinum er ganga yfir með löngum hléum á milli.


Arnarseturshraun (H 36)2 Stærð: 22,02 km2 0,33 km3 8 ◊.


Arnarseturshraun rann frá amk. 2 km langri þrepstiga gígaröð NV af Stóra Skógfelli. Flatarmál þess er um 22 km2, og rúmmál áætlað 33 km3. 8 Samkvæmt jarðvegssniðum liggur landnámslagið og miðaldalagið (1226) undir hrauninu og af jarðvegssniði (R47) 8 má ætla að Arnarseturshraun sé amk. einum vetri eldra en miðaldalagið. Hvergi er sprungur vegna höggunar að sjá í hrauninu. 8


Hraunrennsli frá gossprungunni virðist einkum hafa verið syðst og nyrst þar sem nú sést um 500 m löng en slitrótt gígaröð (N50A) 8 með 4 - 6 m háum gígum. Gosvirknin á endum sprungunnar dvínaði fljótlega og virðist gosið hafa dregist saman á um 400 m langa gossprungu við Gíghæð (N40A). 8 Þaðan rann svo allt meginhraunið og kaffærði aðra hluta sprungunnar en þá sem nyrst liggja og áður er getið.


Aðalgígarnir á Gíghæð eru nú rústir einar eftir gjallnám en virðast hafa risið allt að 25 m 8 yfir hraunið. Fyrst hefur hraunið frá gígunum einkum runnið til norðurs en síðar aðallega til vesturs og suðvesturs. Hraunið er að miklu leyti helluhraun en í því eru apalhraunflákar og sumstaðar hefur helluhraunið brotnað upp og þar er hraunið mjög úfið er fjær dregur gígnum eins og títt er um hraun á Reykjanesskaga.



Illahraun (H 19)2 er yngra en Eldvarpahraun og miðaldalagið 1226 AD 3:362,  ◊. Stærð: 3,02 km2, 0,036 km3 7


Illahraun nefnist hraunfláki norðvestur af móbergsfellinu Þorbirni og vestan við Sýlingarfell. Flatarmál þess er 3,01 km2 og rúmmál 0,05km3. 7 Hraunið er úfið og víða nokkuð torfæri en hefur þá að mestu runnið sem helluhraun en eftir að yfirborðið storknaði brotnaði það upp í fleka sem sporðreistust og mynduðu karga á yfirborði hraunsins. Hraunið á upptök sín í 200 m langri gígaröð (N30A) 7 með 5 gígum vestast í hrauninu og er nyrsti gígurinn stærstur. Að sunnan og vestan rennur Illahraun út á Eldvarpahraun en hvergi mætir það Arnarseturshrauni.


Illahraun rann yfir miðaldalagið og virðist samkvæmt jarðvegssniðum brunnið í eldgosi sem varð 1226 eða skömmu síðar.7


Eldvarpahraun (H 16)2 Stærð: ≈ 20 km2


Eldvarpahraun rann frá 10 km langri, nokkuð slitrótti, gossprungu sem liggur SV - NA frá Staðarbergi og endar tæpum 2 km vestur af Bláa Lóni. Gígarnir á Eldvarpagígaröðinni eru gjall- og klepragígar og eru sumir þeirra allstæðilegir. Mest var hraunframleiðslan í Eldvörpum sem eru skammt sunnan við miðju gígaraðarinnar. Þar er jarðhiti og er hann nýttur til orkuframleiðslu í Svartsengi. Hraunið er ýmist slétt helluhraun, uppbrotið helluhraun eða úfinn hraunkargi — apalhraun.


Yngra Stampahraun (H 2) 2 Stærð: 4,0 km2 og 0,016 km3 4:215 ◊. |Tgos í sjó|4, 6


Reykjanes er um 5 km langt suðvestast í Reykjaneskerfinu og afmarkast af Stóru Sandvík í vestri og Háleyjarbungu að austan.


Móbergs- og bólstrabergshryggir liggja SV-NA og rísa slitróttir uppúr hraunbreiðunum. Næst ströndinni rís Valahnúkur þverhníptur í sjó fram. Þar stóð gamli vitinn uns undan honum hrundi og nýr viti var byggður á Bæjarfelli. Fjær eru Litlafell, Sýrfellsdrög og Sýrfell sem hæst ber. Á austanverðu Reykjanesi eru hraundyngjurnar Skálafell og Háleyjarbunga og eru hraun þeirra mjög misgengin enda elst hrauna á nesinu.


Ung hraun runnin frá gossprungum þekja vestanvert nesið og liggja víða að hryggjunum og dyngjuhraununum. Stærst og elst þessara hrauna er Tjaldstaðagjárhraun og þekur það um fimmtung nessins. Yfir það að hluta hefur Eldra stampahraun runnið frá gossprungu sem liggur samsíða vesturströndinni. Gígarnir á sprungunni eru nokkuð veðraðir, rofnir og nokkuð ellilegir að sjá. Tjaldstaðagjárhraun og Eldra Stampahraun eru talin mynduð í sömu jarðeldahrinu fyrir 1.800 - 1.500 árum 4:214


Nokkru austar og samsíða er yngri gossprunga og er Yngra Stampahraun runnið frá henni. ◊. Nyrst á sprungunni eru tveir gígar „Stampar“ sem til að sjá líkjast stömpum á hvolfi. Á sprungunni miðri er gígurinn Miðhóll og skammt upp af ströndinni er einn stærsti gígurinn, Eldborg dýpri. Syðri endamörk gígaraðarinnar á landi eru við grunna vík, Kerlingarbás, sem dregur nafn sitt af móbergsdrangnum Kerlingu sem stóð uppúr sjónum fyrir miðjum básnum en er nú löngu hrininn. Annar móbergsdrangur, Karl, er enn að sjá á svipuðum slóðum. ◊.


Yngra Stampahraun er talið myndað á 4 km langri gossprungu um 1226 ◊. í yngstu jarðeldahrynunni á Reykjanesskaga. Gosið hófst líklega við ströndina í Kerlingarbás þar sem hverfjallið Vatnsfellsgígur hlóðst upp og barst gjóskan aðallega til hafs. Nokkrum mánuðum seinna hófst gos á sprungunni að nýju uþb. 500 m frá ströndinni og hlóðst þá upp annað hverfjall, Karlsgígur. Gjóskan frá honum barst að hluta inn til landsins, yfir allt Reykjanes, (R-7, miðaldalagið ) en að mestum hluta til hafs. Í framhaldi af gjóskugosunum við ströndina hófst hraungos á landi og rann hraun frá 4 km langri gígaröðinni. Mest var hraunrennslið á báðum endum gígaraðarinnar þar sem gígarnir eru stærstir. Hraun ran upp að Karlsgígnum og markar hraunjaðarinn við ströndina útlínur hans að hluta líkt og sjá má á teiknaðri mynd.  4:226


Stamparhraun yngra 3:362   SiO2 Al2O3 Fe2O3 MnO MgO CaO Na2O K2O TiO2 P2O5
Sýni: # 456714 49,17 14,15 13,31 0,21 7,33 11,90 2,06 0,17 1,56 0,15

Eldey — er talin hafa myndast í gosi í sjó á Reykjaneshrygg 1210 - 1211 9  ◊. ◊.


Ögmundarhraun (H 69) 2 1151 9, 11 ◊.


Ögmundarhraun rann frá 25 km langri gossprungu í Krýsuvíkurkerfinu — Krýsuvíkureldum 1151. Syðstu gígarnir eru rétt norðan þjóðvegarins á milli Latfjalls og Núpshlíðarháls og liggur þaðan NA með Selsvallahálsi, eftir endilöngum Móhálsadal, til Vigdísarvalla. Þar hafa hraunin að mestu fyllt Móhálsadal og runnið til til sjávar í suðri. Norðar á sömu sprungu hefur hraun runnið við Mávahlíðar. 11


Frá gígaröðinni rennur hraunið til strandar og breiðir mjög úr sér á þeirri leið. Að vestanverðu rann það fram með Núphlíð, yfir eða meðfram Katlahrauni (H 55) 2 og SV til strandar við Selatanga. Að austanverðu rann Ögmundarhraun fram með Mælifelli suðvestast í Sveifluhálsi og þaðan liggur eystri hraunjaðarinn beint til sjávar. Þar hefur hraunið runnið yfir eldra hraun (H 107) 2 og sér í það suður af Mælifelli og í tveimur óbrennishólmum í hrauninu. Syðst nær hraunið á milli Miðreka að vestan og Húshólma að austan. Þar nær það uþb. 680 m út fyrir gömlu ströndina og hefur líklega steypst þar fram af sjávarkampinum og fyllt hina fornu Krýsuvík.11


Líklega hefur hraunið kaffært nokkra byggð upp af ströndinni við Gömlu Krýsuvík eins og sést á mannvistarleifum í óbrennishólmum hraunsins. Nánast í hrauninu miðju er Óbrennishólmi en þar eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana og er hún því eldri en hraunið. Austar og niður við ströndina er enn stærri óbrennishólmi og nefnist hann Húshólmi. Þar eru tveir garðar sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur hann að mestu verið hlaðinn úr torfi þó grjót sjáist á stöku stað. Hann er eldri en Landnámslagið sbr. snið R-3 11 á mynd Neðri garðurinn liggur í sveig suðvestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Líklega afmarkar þessi garður þann skika sem nefndur var Kirkjuflöt. Ofarlega í Húshólma er lítil fjárborg og syðst og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.11


Merkastar eru mannvistarleifarnar í tveimur litlum óbrennishólmum skammt vestan við Húshólma neðanverðan í svonefndum Kirkjulágum. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að húsveggjum og að hluta yfir þá. Í neðri láginni er tóft sem hraunið rann ekki yfir og er líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulág og Kirkjuflöt benda til.11


Allgreiðfær gata, greinilega rudd, og 2 - 3 m á breidd liggur í Húshólma austanfrá. Hún er forn og gerð fyrir tíma Eggerts og Bjarna er þeir fóru um Krýsuvík 1755. 12 Gata liggur úr Húshólma í Neðri-Kirkjulág og þaðan vestur til Selatanga. Margt bendir til þess að Kirkjan hafi verið endurbyggð og ekki lagst af sem alkirkja fyrr en 1563.12


Ögmundarhraun liggur ofan á landnámslaginu (871 ± 2 AD) og undir miðaldalaginu (1226 AD). Nokkrar 14C aldursgreiningar voru gerðar fyrir 1988 11 af sýnum tengdum Ögmundarhrauni. Þorleifur Einarsson lét aldursgreina koluð sýni úr eldstæði 1974, sem líklega voru úr rekaviði og gáfu því of háan aldur þó leiðréttur væri samkvæmt tveimur viðurkenndum aðferðum eða 1027 AD og 1030 AD. Jón Jónsson lét aldursgreina 3 sýni af koluðum jurtaleifum undan hrauninu. Sýni Jóns virðast gefa ≈ 1028 ± 62 AD. Eftir leiðréttingar fást ártöl frá 1044 - 1156 AD. Fáar sögulegar heimildir eru um eldgos á Reykjanesskaga. Konungsannáll, Oddaverjaannáll og Annáll Flateyjarbókar geta um jarðeld í Trölladyngjum árið 1151 sem í þessu tilfelli getur vel átt við jarðeld á þeirri gossprungu sem Ögmundarhraun rann frá.11


Ögmundarhraun 3:362   SiO2 Al2O3 Fe2O3 MnO MgO CaO Na2O K2O TiO2 P2O5
  48,75 14,23 13,05 0,21 7,66 12,14 2,15 0,19 1,48 0,14

Mávahlíðarhraun (H 81)2, 11 ◊.



Kapelluhraun (H 97)2 1151 9 ◊.


Líkt og Ögmundarhraun brann Kapelluhraun í Krýsuvíkureldum þar sem gígaröðin tók sig upp aftur við Vatnsskarð og þaðan NA meðfram Undirhlíðum. Þaðan rann hraunið til sjávar við Straumsvík. 11


Rjúpnadyngnahraun (H 154) 2 er nánast í miðri hraunbreiðu margra hraunfláka sem kölluð er Húsafellsbruni. Miðja vegur á milli Þríhnúka og Sandfells er eldvarpið Rjúpnadyngjur sem lítið ber á og virðist svo sem um dæmigert hraungos hafi verið að ræða og hraunið án verulegrar gjall- eða klepramyndunar. Hraunið er víða stórbrotið með djúpum sprungum og illfærum gjám. Nyrsti tangi hraunsins endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell þar sem það rennur út á búrfellshraun. Norðaustur af Búrfelli hefur leysingavatn rofið farveg meðfram hraunröndinni og þar má sjá að Landnámslagið liggur undir hrauninu og ofan á því liggur svarta Kötlulagið frá 1500 AD.1:129 Rjúpnadyngnaahraun er talið frá 1150 AD? 3:362


Rjúpnadyngnahraun 3:362   SiO2 Al2O3 Fe2O3 MnO MgO CaO Na2O K2O TiO2 P2O5
  47,74 15,13 12,60 0,20 8,23 11,97 2,16 0,20 1,62 0,15


Tvíbollahraun (H 97)  ≈ 1000 AD 9


Selvogshraun (H 138)2 rann frá stuttri SV-NA-lægri sprungu á fjallsbrún rétt austan við hina fornu brennisteinsnámu, en Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af henni. Nyrst á sprungunni er stærsti gígurinn hár og brattur gjallgígur sem J.J. kallar Gráfeld1:130 og hefur stærstur hluti hraunsins runnið frá honum og steypst niður í dalinn á leið sinni suður til sjávar. Í dalnum rann hraunið yfir eldri hraun og þám. þá hraunlænu Breiðdalshrauns er rann til suðurs. Hraunið féll svo fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmdist neðan við brekkuræturnar rétt norðan við núverandi þjóðveg [427]. Aldursgreining liggur ekki fyrir en annálar geta um hraunrennsli á þessum slóðum 1340 og 13891:131. Yngri heimildir benda til þess að hraunið sé eldra og að það hafi runnið áður en miðaldalagið (R9  Tgos í sjó) 1226 féll.5:9  ≈ 1000 AD 9


Kóngsfellshraun (H 149) ≈ 1000 AD 9


Svínahraunsbruni (H 158) — Kristnitökuhraun ≈ 1000 AD 9, 10 ◊.


Breiðdalshraun H (H 129)2 rann úr mikilli eldstöð á Brennisteinsfjöllum sem nefnd hefur verið Kista. Frá eldvarpinu runnu hraunstraumar bæði suður af fjallinu og til norðurs. Hraunið sem rann til norðurs í mjóum straumi er dæmigert helluhraun og féll í bröttum hraunfossi niður í Fagradal og þaðan í átt til Undirhlíða og stöðvast í Breiðdal.1:129 Aldur hraunsins er álitinn 940 – 980 AD.3:362



Sjá aldur nokkurra hrauna.




Heimildir:   1 Jón Jónsson 1983: „Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga“, Náttúrufræðingurinn 52 (1-4) 127 - 139.
   2 Jón Jónsson 1978: „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga“, Skýringar og kortablöð Orkustofnun, OS JHD 7831.
3 Peate, David W. · Joel A. Baker · Sveinn P. Jakobsson · Tod E. Waight · Adam J. R. Kent · Nathalie V. Grassineau · Anna Cecile Skovgaard 2008: „Historic magmatism on the Reykjanes Peninsula, Iceland: a snap-shot of melt generation at a ridge segment“, Contrib Mineral Petrol (2009) 157:359–382
  4 Magnús Á. Sigurgeirsson 1995: „Yngra-Stampagosið á Reykjanesi“, Náttúrufræðingurinn 64 (3) bls. 211-230.
  5 Helgi Torfason & Magnús Á. Sigurgeirsson 2001: „Brennisteinsfjöll, rannsóknir á jarðfræði svæðisins“, unnið fyrir Orkustofnun OS-2001/048.
  6 Magnús Á. Sigurðsson 1995: „Miðaldalagið“ í Björn Hróarsson et al. Eyjar í Eldhafi, útg. Gott mál, bls. 189-198.
  7 Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1988: „Aldur Illahrauns við Svartsengi“ Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
  8 Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989: „Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga“ Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 8.
  9 Haukur Jóhannesson 2007: „Munnleg heimild“ Útvarpsviðtal, RÚV.
  10 Sinton, John , Karl Grönvold, Kristján Sćmundsson 2005, AGU, GEOCHEMISTRY GEOPHYSICS GEOSYSTEMS, VOL. 6, Q12009, doi:10.1029/2005GC001021, 2005.
  11 Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988: „Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins“, Jökull # 38, 1988., bls. 71 - 87.
  12 Sveinbjörn Rafnsson 1982: „Um aldur Ögmunarhrauns“ í Þorleftur Einarsson et al. ritstj. ELDUR ER Í NORÐRI afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum 8. jan. 1982, Söguflélag, bls. 415 - 424.