Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru fyrstir til að beita jarðbor hér á landi. Þeir fengu lánaðan jarðnafar hjá Konunglega danska vísindafélaginu og fluttu hingað til lands. Áhugi þeirra beindist fyrst og fremst að brennisteinsnámi á jarðhitasvæðum. Þeir boruðu fyrst árið 1755 við heitar laugar í Laugarnesi og ári síðar í Krýsuvík. Þar tókst þeim að bora 10 m djúpa holu. Sagt er að úr holunni hafi gosið sjóðandi leirblöndu tveggja metra hárri.
Vegna skorts á neysluvatni í Reykjavík var fenginn höggbor frá Danmörku 1904 og borað eftir köldu vatni við Öskjuhlíð. Vatnsleitin bar ekki árangur en engu að síður má telja þetta upphaf nútíma jarðborana hér á landi. Þótt ekkert fyndist vatnið töldu menn sig sjá gull í bergmolum úr borholunni en þótt borað væri næstu 20 árin fannst þó ekkert gullið enda var hér um brennisteinskís glópagull að ræða.
Málmleit hf., sem stofnað var til gullleitar í Vatnsmýrinni, flutti árið 1922 jarðbor til landsins (haglabor) frá þýska fyrirtækinu Alfred Wirth & Co. gagngert til gulleitar í Vatnsmýri (síðari borinn Gamli gullborinn). Sú leit bar engan árangur enda varð félagið gjaldþrota 1928.
Rafmagnsveita Reykjavíkur, sem stofnuð var 1921, keypti bor Málmleitar hf. og flutti hann að Þvottalaugum og því má segja að boranir eftir jarðhita hæfust aftur eftir 173 ára hlé frá því að Eggert og Bjarni boruðu í Krýsuvík. Rafmagnsveitan keypti síðan seinni haglabor sinn 1936 frá Þýskalandi. Með þessum bor voru boraðar 27 holur á árunum 1937 - 1962 og var holan við Rauðará, við norðurenda Rauðarárstigs. Hún var 770 m djúp og tók um 15 mánuði að bora hana. Þetta var dýpsta holan sem boruð hafði verið þar til Gufuborinn, sem svo var kallaður, tók til starfa 1958.
Árangur af þeim borunum sem Rafmagnsveita Reykjavíkur stóð fyrir á árunum 1928 - 1930 við Þvottalaugarnar var svo góður að hægt var að tengja fyrstu húsin við hitaveitu árið 1930, þám. Austurbæjarbarnaskólann sem þá var nýr. Til að sjá Reykjavík fyrir nægu heitu vatni til upphitunar húsa voru jarðhitaréttindi keypt að Reykjum í Mosfellssveit 1933 og til að fullnægja heitavatnsþörf nágrannasveitarfélaganna keypti Hitaveita Reykjavíkur Kolviðarhól 1955 og Nesjavelli nokkru síðar.
Hitaveita Reykjavíkur varð að sjálfstæðu fyrirtæki árið 1946 sex árum eftir að lög um hana voru sett sem veittu henni einkarétt til að selja heitt vatn til húsa sem hún náði til.
Sjá borholur, stefnuborun og bortækni.
Sjá: Nýting jarðhita.
Heimild: | Guðmundur Pálmason 2005: Jarðhitabók — Eðli og nýting auðlindar. HÍB; bls. 123 – 130. Valgarður Stefánsson 1980: Borun eftir jarðhita og rannsóknir á borholum, Náttúrufræðingurinn, 50, 3-4. |