Holuhraun eru að öllum líkindum tvö og það eldra líklega frá 1797 en það yngra etv. frá 1862-'64 en þá gaus einnig í Veiðivatnarein Bárðarbungukerfisins. ◊. ◊.


Þorvaldur Thoroddsen gaf hrauninu nafn og nefnir það bæði í Ferðabókum sínum og í Landfræðisögunni. Hann skoðaði hraunið á ferð sinni um Ódáðahraun 1884:

„Miðja vegu milli Urðarháls og Jökulsár er allmikið hraun á miðjum söndunum. Nær það fast upp að jökli og langt norður, og er ákaflega illt yfirferðar. Kölluðum við það Holuhraun. Hraun þetta hefur komið úr gígahrúgu rétt við jökulröndina. Gígar þessir standa í óreglulegri hrúgu og eru úr gjalli, sumir blóðrauðir. Þar eru margar sprungur og gjár. Við jökulröndina hefur hraunið hulizt leir og leðju. Má þar fara milli hrauns og jökuls, þó það sé mjög örðugt sökum jökulkvísla og sandbleytu. Hestarnir lágu í hvað eftir annað og bröltu á hnjánum í sandbleytunni innan um nibbur og hraungrýti“.1

Holuhraun hafa hingað til verið talin tilheyra eldstöðvakerfi Öskju en nýjar rannsóknir á berggerð og efnasamsetningu Holuhrauna sýna að þau eru ólík dæmigerðum Öskjuhraunum en líkjast fremur hraunum úr Bárarbungukerfinu. Jarðfræðingar Náttúrufræðistofnunar lögðu því til að eldstöðvakerfi Bárðarbungu verði endurskilgreind í Dyngjujökli og norðan jökuls.2 ◊.


Hraunið sem þegar hefur runnið frá ágústlokum er talið vara nú um 1 km3 og er það það mesta sem runnið hefur hér á landi frá skaftáreldum 1783 – 1784 og sennilegar þriðja stærsta hraun sem runnið hefur á Jörðinni eftir þann tíma. Eitt helsta sérkenni jarðeldanna norðan Vatnajökuls er mikið og óvenju stöðugt hraunflæði. Nú hefur að vísu dregið úr hraunrennslinu um helming frá byrjun eldanna úr ~ 200m3/sek í september sem er svipað og tvöfalt rennsli Sogsins niður í < 100 m3/sek í nóvember sem er álíka og rensli Skjálfandafljóts. Askja Bárðarbungu sígur jafnframt helmingi hægar nú en þegar sigið var mest.


Skjálftavirknin í eldfjallinu náði hámarki fyrir miðjan september og hefur farið hægt minnkandi síðan en er þó enn mjög mikil. Jarðskjálftahrinan er ein sú mesta sem mælst hefur í eldfjalli í heiminum.


Í fyrsta skipti í 150 ár hefur gasmengun frá eldfjalli haft áhrif víða um land. Ástæðuma má kenna stærð gossins og hversu lengi það hefur staðið. Ekki hefur mælst mikil gasmengun í byggð síðustu vikur saman borið við september og október og stafar það líklega af umhleypingasömu veðurfari.


Jarðvísindamenn telja að sig Bárðarbungu og jarðeldarnir haldi áfram amk. í nokkra mánuði ef þrúnin verður með líkum hætti og verið hefur – þes. ef gert er ráð fyrir sömu þróun á hraunflæði og sigi og verið hefur. Þetta kann þó að breytast og enn getur gos hafist undir jökli og eða Bárðarbungu.3


Efnasamsetning hins nýja Holuhrauns. |T|


Sjá síðu um seigju kviku.







Heimildir:
1 Þorvaldur Thoroddsen 1913 – '15: Ferðabók I. bindi – skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882 – 1898, 2. útgáfa (Jón Eyþórsson) 1958, bls. 367.
2 28.8.2014 : Ný afmörkun eldstöðvakerfis Bárðarbungu
< http://www.ni.is/frettir/nr/14158 >.
3 Fréttir á vefsetri RÚV
< http://www.ruv.is/frett/ >