Lofttegundir — gosgufur

Þegar bráðin kvikan kemur upp á yfirborðið í eldgosum losna ýmsar lofttegundir úr kvikunni vegna þrýstingslækkunarinnar sem kvikan verður fyrir á leið sinni upp á yfirborðið. Helstu lofttegundir sem rjúka úr hraunbráðinu eru:



Vatnsgufa H2O(g) ≈ 80 %
Koldíoxíð CO2(g) ≈ 9 %
Brennisteinstvíoxíð    SO2(g) ≈ 5 %
Vetni H2(g) ≈ 5 %
Kolsýrlingur CO(g) ≈ 0,5 %


Auk þess eru ýmis önnur efnasambönd í gosgufum eins og t.d. flúorsambönd.


Það er breytilegt eftir eðli gossins hversu stór mökkurinn getur orðið. Í hreinum hraungosum er gosmökkurinn fremur lítill en gosgufur og gjóska þeytast þeim mun hærra eftir því sem kvikan er seigari og sprengikraftur gossins vex.


Mökkurinn er að stærstum hluta vatnsgufa sem hefur þéttst. Hann er oftast stærstur í upphafi goss einkum vegna þess að kvikan í gígpípunni dregur grunnvatn til sín og einnig má gera ráð fyrir því að gosgufurnar hafi safnast fyrir efst í kvikuþrónni. Þegar gos verður undir jökli eða á sjávarbotni eins og í Surtsey eimast mikið magn af vatni. Ná þá gosmekkirnir oft upp að veðrahvörfum en þau eru í u.þ.b. 9 km hæð yfir Íslandi. Í kraftmiklum þeytigosum er algengt að gosmökkurinn nái upp í efri hluta heiðhvolfsins í u.þ.b. 27 - 30 km hæð. Gosmökkurinn í Heklugosinu 1947 náði t.d. 30 km hæð á fyrstu klst. eftir upphaf gossins en síðar dró úr hæð hans.


Margar lofttegundanna sem losna úr kvikunni við eldgos eru banvænar. Magn gosgufanna skiptir þá miklu máli og ennfremur hvers konar aðstæður eru ríkjandi við gosið. Í kyrru veðri leggjast þungar lofttegundir eins og CO2 í dældir og lægðir og ryðja súrefninu burtu þannig að þar verður skortur á súrefni. Slíkir staðir geta því verið mönnum og dýrum hættulegir. Skaftáreldar (1783 - 1784) eru það gos hér á landi er mestu tjóni hefur valdið með eitruðum lofttegundum.1

235 · 106 tonn H2O(g)
122 · 106 tonn SO2(g)
349 · 106 tonn CO2(g)
6,8 · 106 tonn HCl(g)
15,1· 106 tonn HF(g)


Talið er að brennisteinsdíoxíðið hafi átt mestan þátt í að spilla gróðri en flúormengun hefur einnig átt stóran þátt í þeim skepnufelli er fylgdi í kjölfarið. Flúorið binst á yfirborð gjóskukornanna og magn þess eykst því hlutfallslega eftir því sem askan er fíngerðari og yfirborðsmeiri. Eins millimetra þykkt fínkornað og flúormengað öskulag sem leggst á gróður í gróandanum getur valdið því að hann verði banvænn fyrir skepnur. Flúorið sest aðallega í bein og veldur þar skemmdum og truflun á beinmyndun, svokölluðum gaddi. Skepnur með flúoreitrun geta því veslast upp og drepist.







Heimild:   1 Guðmundur Sigvaldason 1999: „Invited lecture: Geochemistry of catastrophic events“ í Halldór Ármannsson (ed) Geochemistry of the Earth's Surface,© 1999 Balkema Rotterdam ISBN 90 5809 073 6