Brotlausnir skjálfta [En: fault-plane solution; De: Herdflächenlösung]


Með rannsóknum á skjálftaritum frá nægilega mörgum mælistöðum umhverfis skjálfta má greina mismunandi hegðun þrýstibylgnanna (P) og finna þannig brotlausnir skjálfta.


Við sprengingu neðanjarðar þrýstist efnið út frá upptökunum og þrýstibylgja berst jafnt í allar áttir. Fyrsta hreyfing bylgjunnar sést því koma frá upptökunum á öllum mælistöðvum og gefur því jákvætt útslag.


Þegar jarðskjálfti orsakast af misgengishreyfingum er þessu öðruvísi farið. Þá verður útslag þrýstibylgjunnar misstórt eftir áttum því litlar sem engar þrýstibylgjur (P) berast út frá upptökunum í stefnu sem er samsíða hreyfistefnu misgengisflatarins og einnig hornrétt á hana. Fyrsta hreyfing þrýstibylgjunnar (P) er því mismunandi eftir áttum þegar hún kemur til mælistöðvanna umhverfis skjálftaupptökin, ýmist jákvæð, þ.e. frá upptökum eða neikvæð þ.e. að upptökunum. Sjá mynd (ii). Brotlausn skjálfta fæst því með samanburði á útslagi skjálftarita frá mörgum mælistöðvum umhverfis skjálftaupptök.


Með brotlausnum skjálfta má finna út eðli misgengisins og hvort um sé að ræða sniðgengi, samgengi eða siggengi.


Þegar upptök skjálfta sem orðið hafa á jörðinni eru færð inn á heimskort má sýna fram á hvar jaðrar jarðskorpuflekanna liggja og út frá brotlausnum skjálftaritanna er hægt að túlka mismunandi eðli jaðranna:

  1. Flekaskil á úthafshryggjum eins og Atlantshafshryggnum. Hann er alsettur þversprungum eins og Charlie Gibson-sprungunni vestur af Írlandi. Einnig eru þversprungurnar á Suðurlandi og úti fyrir Norðurlandi sömu gerðar.
  2. Flekamót þar sem úthafsflekinn gengur undir meginlandsfleka eins og við vesturströnd Suður-Ameríku.
  3. Flekamót þar sem yngri úthafsflekinn gengur undir eldri úthafsfleka við eyjaboga álíka og við Austurströnd Japanseyja.
  4. Flekamót þar sem úthafsfleki rennur fram með meginlandsfleka eins og á San Andreas-sniðgenginu í Kaliforníu.


Skjálftalausnir við Ísland.



Brotlausnir stóra skjálftans í Japan 11. mars. 2011.






Sjá INDEX /=> |J| → jarðskjálftar.