Eldgos í Gjálp 1996. Þann 29. september kl. 10:48 varð jarðskjálfti 5,4 stig á Richter í öskju Bárðarbungu. ◊ ◊ Smærri skjálftar fylgdu á eftir og færðust upptökin til SA. Að kvöldi 30. september höfðu skjálftaupptökin færst rúmlega hálfa leið til Grímsvatna þegar mælarnir sýndu gosóróa sem benti til þess að hraunbráð rynni óhindrað úr gígnum undir jöklinum. Eldstöðin reyndist vera á svipuðum slóðum og gos 1938 og var henni gefið nafnið Gjálp. Gosið er talið hafa hafist 30. sept. 1996 kl.≈ 22:00 GMT.
Á gossprungunni hlóðst upp uþb. 8 km langur móbergshryggur og þar sem hann varð hæstur bræddu gosefnin 3,5 km langa geil í ísinn, rétt sunnan vatnaskila Skeiðarár og Jökulsár á Fjöllum. Vatn frá geilinni rann til Grímsvatna og var áætlað að rennslið hafi verið uþb 5.000 m3/sek eða meira en tvöfalt rennsli Ölfusár. Við þetta lyftist íshella Grímsvatna og viðbúið að vatn myndi hlaupa til Skeiðarár. ◊ ◊
Órói sem bent gat til kvikustreymis eða jökulhlaups kom fram á jarðskjálftamæli á Grímsfjalli að kvöldi 4. nóvember 1996 og næsta morgun kl. 8 varð vart við hlaupvatn í Skeiðará. Hlaupvatnið æddi svo fram af fullum krafti kl. 08:40 og breyttist áin í einni svipan úr 70 m breiðu fljóti í 900 m breitt stórfljót. Einkenni hlaupa af völdum eldsumbrota er að þau eru fljót að ná hámarki og réna fljótt enda var þessu hlaupi lokið á þriðja degi þann 7. nóvember. ◊
Akveginn á sandinum tók af á nokkrum stöðum og brú Skeiðarár sem hönnuð var til að standast hlaup laskaðist og rofnaði vegna stórra jaka sem flutu fram með flóðvatninu og beygðu og brutu járnbitana undir brúargólfinu. Brúna yfir Gígjukvísl (Sandgígjukvísl) ◊ tók af enda tók Gígjukvísl við ógrynni vatns sem safanst hafði að baki jökulgarða framan við Skeiðarárjökul ◊ sem líklega eru frá hámarki litlu ísaldar. ◊ ◊ ◊. Talið er að 2/3 heildarrennslis frá Grímsvötnum hafi runnið um hana og þegar hlaupið var í hámarki hafi rennslið verið 33.000 m3/sek á móti 23.000 m3/sek í Skeiðará.
Sjá um gos í öskjum undir jökli.
Sjá: Vatnajökull.
Sjá síðu Veðurstofu Íslands um vöktun jarðskjálfta á Vatajökulssvæpðinu.
Heimildir: | Guðmundsson Magnús T., Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson. 1997: Ice-volcano interaction of the 1996 Gjálp subglacial eruption, Vatnajökull, Iceland. Nature, 389, 954-957. |
Hjörleifur Guttormsson & Oddur Sigurðsson 1997: Leyndardómar Vatnajökuls — Víðerni, fjöll og byggðir — Stórbrotin náttúra, eldgos og jökulhlaup; útg.: Fjöll og firnindi. |