Þegar gos verða í öskjum, sem liggja undir jökli, verða mikil þeytigos hvort heldur sem gosefnin eru basísk eða súr. Gosunum fylgja mikil flóð sem kallast jökulhlaup. Eldsumbrotin og jarðvarminn bræða ísinn yfir gígrásinni og flæðir leysingavatnið úr öskjuskálinni þegar gosið byrjar. Mikið jökulhlaup kom úr Öræfajökli í gosinu 1362. Einnig kom hlaup úr öskju Eyjafjallajökuls 1821 og úr öskju Kverkfjalla ◊ ◊ í gosi 1477. Stærstu jökulhlaupin, sem spurnir fara af síðan land byggðist, hafa komið úr Kötlu- og Grímsvatnaöskjunni. Úr Kötluöskjunni getur vatn bæði hlaupið undan Sólheimajökli niður á Sólheimasand og einnig undan Höfðabrekkujökli niður á Mýrdalssand allt eftir því hvar eldsumbrotin eru í Kötluöskjunni. Mikið hlaup, sem varð við gos í Sólheimajökli um 1360, myndaði Sólheimasand ◊. og Skógasand. Sjá myndir: ◊ ◊ ◊ ◊ ◊ ◊
Á Mýrdalssandi hafa einnig orðið verulegar breytingar vegna jökulhlaupa undan Höfðabrekkujökli enda er Katla ◊. talin hafa gosið a.m.k. 18 sinnum, síðan land byggðist eða oftar en Hekla, og framleitt meiri gjósku en nokkur önnur eldstöð íslensk á þessum tíma. Heildarvatnsmagn Kötluhlaupa er líklega um 1 - 2 km3 og þau ná fljótlega hámarksrennsli sínu, 100.000 m3/sek. og eru þau þar með annað stærsta vatnsfall á jörðinni, en það varir skammt. Kötluhlaup eru talin hafa fært ströndina fram með framburði sínum og aukið við landið milli Blautukvíslar (Eyjarár) og Reynisfjalls sem svarar 40 km2 síðustu 11 aldirnar. Frá því á 17. öld hefur Katla gosið tvisvar á öld og nú síðast 1918.
Grímsvatnaaskjan er ein virkasta íslenska eldstöðin og þar er eitt mesta háhita- og brennisteinshverasvæði landsins. Vatn safnast fyrir í Grímsvatnalægðinni vegna leysinga og bráðnunar neðan frá. Áður fyrr leið áratugur á milli hlaupa og safnaðist þá fyrir vatn sem nam um 6 - 7 km3 í sigdældinni. Vatnið lyfti jöklinum og hljóp fram undan Skeiðarárjökli. Grímsvatnahlaupin eru lengi að ná hámarksvatnsrennsli, 40.000 m3/sek., sem er meira en tvöfalt minna en í Kötluhlaupunum. Gosin, sem tíðum fylgdu hlaupunum, voru talin koma þeim af stað en allt eins má telja líklegt að því hafi verið öfugt farið. Síðustu áratugina hafa hlaupin verið tíðari en minni, 3,0 - 3,5 km3.