afstæður aldur: fæst með því að bera saman aldur laga. ([relatívur] aldur).


Berglög í vestfirskum og austfirskum fjöllum birtast okkur sem hamrabelti þar sem hvert hraunlagið leggst ofan á það sem eldra er. Það getur reynst erfitt að segja til um hversu gömul þessi hraunlög eru en það reynist okkur hins vegar auðvelt að skilja að yngra hraunlagið liggur yfirleitt ofan á því eldra. Þetta byggir á tveimur mikilvægum tilgátum jarðfræðinnar.


Sú fyrri um yfirlegu jarðlaga, sem kennd er við Danann Nikulás Stenó, sem uppi var á 17. öld, tekur til myndunar hraun- og setlaga og segir að efra lagið í berglagastafla sem ekki hefur umturnast sé ávallt yngra en það sem undir liggur.


Síðari tilgátan er kennd við breska jarðfræðinginn James Hutton (1726 - 1797). Hann áleit að jarðsöguna mætti skýra út frá þeim náttúrulögmálum sem ávallt eru að verki, nú sem endra nær. Þessi einfalda en nytsama hugmynd var síðar kölluð sístöðukenningin. Sú aðferð Huttons að útskýra útlit og gerð bergs með því að athuga gang náttúrunnar nú hefur í daglegu tali verið útskýrð á þann veg að nútíminn sé lykill að fortíðinni.


Sjá einkennissteingervinga, segulmælingar og öskulagatímatal.