Aldursákvarðanir út frá bergsegulmælingum

Við rannsóknir á segulmögnun berglaga kemur í ljós að segulpólarnir eru ekki aðeins á hreyfingu heldur hefur segulsvið jarðar oft umpólast á liðnum ármilljónum. Með segulmælingum á hraunlögum hafa kúvendingar segulsviðsins verið raktar a.m.k. 60 milljón ár aftur í tímann. Berglög með líkri segulstefnu og er ríkjandi í dag eru sögð „rétt segulmögnuð“ (N) en hin eru sögð „öfugt segulmögnuð“ (R). Ennfremur hefur tekist að ákveða aldur þessara umsnúninga segulsviðsins og draga þannig upp tímatöflu yfir skiptingu þessa hluta jarðsögunnar í segulskeið. Síðustu segulskeiðin fjögur voru nefnd Brunhes, Matuyama, Gauss og Gilbert eftir þekktum vísindamönnum sem höfðu lagt þessum fræðum lið. Jarðfræðingar gerðu sér vonir um að tímatafla segulskeiðanna gæti nýst vel við að ákvarða afstæðan aldur hraunlaga. Fljótlega komu hins vegar í ljós stutt skeið sem kljúfa áðurnefnd fjögur meginsegulskeið og sífellt fleiri eru enn að uppgötvast.


Sjá um segulmögnun hafsbotnsins.