Móberg myndast við ummyndun gjósku sem verður til við gos undir jökli eða vatni. Mikið af gjósku myndaðist við slíkar aðstæður á kuldaskeiðum ísaldar og varð meginhluti hennar að gleri þegar hraunbráðið snöggkólnaði í vatninu. Þetta glerbrotaberg kallast hyaloclastite á erlendum málum. Glerið ummyndast auðveldlega í palagónít, sem er brúnleitt og gefur móberginu lit.
Móbergið getur því varla talist gosberg því að myndun þess gerist eftir að gosið er um garð gengið. Eigi að síður er það tekið fyrir hér með gosmyndunum.
Ummyndun glersins byrjar með vötnun á yfirborði kornanna og ræður hiti og rakastig mestu um hversu hratt ummyndunin gerist. Í Surtsey ◊ kom í ljós að við 80 - 100°C hafði gosaska breyst í þétt móberg á 1 - 2 árum. Þegar glerbrotabergið ummyndast í móberg leysast ýmis efni úr glerinu, aðallega Na2O, CaO, Al2O3, K2O, SiO2 og MgO. Í staðinn gengur vatn inn í glerið og tvígilt járn (Fe+2) oxast í þrígilt, (Fe+3), en við það fær bergið ryðrauðan lit þ.e. járnið ryðgar. Jónirnar sem losna úr glerinu mynda síðan holu- og sprungufyllingar á milli kornanna í gjóskunni en við það límist hún saman, harðnar og þéttist, og verður að móbergi. ◊ Algengustu holufyllingarnar eru kalsít, kabasít, skólesít, analsím og ópall. ◊
Helgi Péturs varð fyrstur til að benda á að móbergið hefði myndast undir jökli.
Síðustu rannsóknir benda til þess að bakteríur eða fyrnur flýti fyrir ummynduninni.