vötnun: [hydration] er eiginleiki vatns (vegna skautunaar þess) til að leysa upp jónaefni. Eitt besta dæmið er vötnun salts. ◊
Vötnun bergs gerist þegar hýdroxíð-jónin (OH-) binst yfirborði bergs við snertingu og myndar hýdroxíð. Glerkennt og dulkornótt berg vatnast hraðar en vel kristallað berg. Í fyrstu mynda hýdroxíðin myndlaus efni áður en þau ná að kristallast og er þetta algengt við myndun móbergs þar sem vatnað ummyndað gler getur verið allt að 10% vatn. Algengasta vatnaða efnið í bergi er kísilgler sem myndar ópal og kalsedón auk þess að vera uppistaðan í myndun leirsteinda.
Hrafntinna vatnast auðveldlega og er perlusteinn gott dæmi um það. Vötnun myndar veðrunarhúð á hrafntinnu og er mögulegt að reikna aldur verkfæra sem gerð hafa verið úr henni með þykkt veðrunarkápunnar.
Sjá um myndun móbergs.