Seinasta ísöld

Svo virðist sem sjávarhiti hafi stöðugt farið lækkandi frá eósen eða fyrir um 50 milljónum ára. Margir vilja tengja þetta reki meginlandanna og þá einkum aðskilnaði Suðurskautslandsins við Suður-Ameríku og Ástralíu en hana byrjaði að reka til norðurs snemma á nýlífsöld (paleósen). Við það varð Suðurskautslandið eyja og vegna vestanvinda myndaðist kaldur hafstraumur umhverfis meginlandið. Nú voru engin meginlönd til þess að beina hafstraumunum norður til hlýrri hafsvæða þar sem þeir gátu sótt upphitun. Við þetta kólnaði mjög á Suðurskautslandinu og jöklar tóku að myndast. Ennfremur barst kaldur djúpsjór norðan úr Íshafi.


Íshella Suðurskautslandsins er talin hafa náð fullri stærð þegar fyrir 10 milljónum ára. Þar munu nú vera bundnir í ísnum um 3/4 alls ferskvatns í heiminum en þrefalt það magn var líklega bundið á jökultímum. Thethyshaf hvarf smám saman við það að Afríka og Indlandsskagi rak til norðurs. Þegar fjallgarðar eins og Kordillerafjöll risu frá norðri til suðurs í Ameríku og Alpafjöll og Himalajafjöll frá vestir til austurs í Evrasíu varð mikil breyting á loftslagi. Ennfremur er líklegt að Golfstraumurinn hafi breyst þegar Panamaeiðið lokar sundinu milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir ≈ 3 Má.


Um 14 milljón ára gömul setlög í íslensku blágrýtismynduninni vitna um hlýtt heittemprað loftslag líkt og í suðaustanverðum Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í 12 og 10 milljón ára gömlum setlögum er merkjanleg kólnun og í um 7 milljón ára gömlum setlögum við Hreðavatn sést að kólnað hefur til muna enda hafði íshella Suðurskautslandsins þá náð fullri stærð. Elstu þekktu íslensku jökulbergslögin eru 5 milljón ára og benda þau til þess að jöklar hafi verið á hæstu fjöllum.


Þessi kólnun heldur svo áfram uns ísöld gengur í garð fyrir um 2,7 Má sbr. sjávarsetlög við Ísland. Ísöldin var að því leyti frábrugðin hinum fyrri ísöldum jarðsögunnar að jöklar virðast fyrst og fremst hafa vaxið á norðurhveli jarðar en síður á suðurhvelinu.


Ísöldin var ekki einn samfelldur fimbulvetur eins og fyrst var talið heldur skiptust á jökulskeið og hlýskeið. (10 - 15 skeið) Saman hafa þau líklega að meðaltali spannað um 100.000 ár og eru hlýskeiðin talin hafa verið mun styttri en jökulskeiðin. Seinasta jökulskeið er talið hafa hafist fyrir um 70 þúsundum ára og því lauk fyrir um 10.000 árum. Það er því eins líklegt að ísöldinni sé ekki lokið enn heldur lifum við á einu af hlýskeiðunum.


Líklegar landfræðilegar skýringar á ísöldum eru: 1) rek meginlanda, 2) landris og myndun fjallgarða, 3) breytingar á hafstraumum vegna landreks.


Við lokun Panamaeiðisins, fyrir 3,6 Má breyttist Golfstraumurinn og áhrif hans jukust. Úrkoma jókst, jöklar stækkuðu og íshellan sveigði Golfstrauminn suður og austur að Íberíuskaga og um leið lækkaði yfirborð hafanna.


Samsætumælingar á djúpsjávarkjörnum sýna að magn koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti minnkar verulega þegar jökulskeið ganga í garð.

Stjarnfræðilegar skýringar hafa einnig komið fram og er þá einkum bent á þrjú atriði.

  1. Svokölluð framsókn jafndægrapunkta sem stafar af hægri hreyfingu vor- og haustpunkts til vesturs eftir sporlaga braut jarðar um sólu. Þessi hreyfing stafar af kraftvægi sólar og tungls á jörðina og vegna fráviks hennar frá kúlulögun. Vorpunktur er í stystri fjarlægð frá sólu á 22.000 ára fresti.
  2. Vegna pólveltu jarðar breytist möndulhalli hennar um 3° á 82.000 árum.
  3. Breytingar verða á hlutfalli skammáss og langáss í sporlaga braut jarðar þannig að hann ýmist nálgast eða fjarlægist hringlögun og gerist það á 92.500 ára fresti. Sjá Milankovitch-áhrif.


Skipting síðustu jökul- og hlýskeiða. |T hlý-kuldaskeið|


Sjá GISP-verkefnið.


Nokkur gröf yfir hitafar.


Sjá um ljómun sólar.


Síðasta ísöld á Íslandi.