Jarðfræðiglósur GK

Dýr ganga á land

Í Rhynie Chert setlögunum í Skotlandi frá árdevon er ekki aðeins fjöldi plöntusteingervinga heldur einnig elstu land-liðfætlur og eru sporðdrekar og ófleyg skordýr þeirra á meðal.


Liðfætlur gengu etv. á land á síðsílúrtímabilinu, skömmu áður en þær sem varðveittar eru steingerðar í Rhynie Chert setlögunum en það var ekki fyrr en á síðdevon að hryggdýr höfðu sambærileg umskipti á lifnaðarháttum sínum.


Það er löngu viðurkennt út frá líffærafræðilegum rökum að þau fjórfættu hryggdýr sem líkust eru fiskum séu froskdýr en til þeirra teljast froskar, körtur og salamöndur.


Sú ályktun að froskdýr séu dæmi um frumstæðustu fjórfættu hryggdýrin er einnig dregin af því að þessi dýr eru fótalaus lagardýr á fyrstu skeiðum ævinnar. Þau klekjast úr eggjum í vatni og eyða þar bernsku sinni og umbreytast síðan í landdýr sem anda að sér lofti með lungum. Þróun þessara dýra byrjaði á síðdevon.


Á Austur-Grænlandi er að finna steingerðar leifar óvenjulegs hryggdýrs í jarðlögum frá síðdevon sem kenndar eru við meginland hins rauða sandsteins (ORS-meginlandið). Þessir steingervingar eru eignaðir ættkvíslinni Ichthyostega (≈ 370 Má) og samsvara dýri sem virðist millistig holdugga og froskdýrs enda sláandi líkt þeim báðum. Sjálfur skúfugginn er gerður úr beinasamstæðu sem líkist því sem finnst hjá froskdýrum. Á líkan hátt svipar tönnum skúfugga mjög til tanna fornra froskdýra. Þessi tanngerð bendir eindregið til þess að froskdýr eigi ættir sínar að rekja til (skúfugga) og önnur svipmót og sérkenni færa síðan sönnur á að svo sé. Ichthyostega var fjórfætt eins og froskdýr en gerð hauskúpunnar var lík því sem gerðist hjá skúfuggum. Skepnan var einnig með hala sem líktist sporði en það hefur þó líklega verið eitt þeirra sérkenna forfeðranna sem nýttist þeim ekki á landi. Vegna þessara samþættingareiginleika er Ichthyostega almennt kallaður „týndi hlekkurinn“.


Það liðu um 80 Már frá því að æðplöntur námu land (síðsílúr eða fyrr) og þar til fyrstu froskdýr komu fram (síðdevon). Það er ekki að undra þótt æðplöntur hafi numið land á undan hryggdýrum því fæðupýramídinn þurfti að byggjast upp frá grunni. Dýr geta ekki lifað á landi án ætra plantna.


Því hefur oft verið haldið fram að ríkar ástæður hafi þvingað fiska til að yfirgefa vatnið og taka upp nýja lifnaðarhætti á þurru landi. Oftast er gert ráð fyrir því að loftslag hafi orðið þurrara og tjarnir þornað upp tímabundið og það aftur neytt fiska með lungu til að anda að sér lofti æ oftar og lengur þegar þeir skriðu frá tjörn til tjarnar. Þó svo að þetta séu trúlegar tilgátur eru umhverfisbreytingar ekki endilega ástæðan fyrir því að fiskarnir hafi yfirgefið vatnið. Þegar þessi breyting varð fundust engin hryggdýr á landi sem þó þá þegar var orðið tiltölulega auðugt af jurtafæðu. Skúfuggar sem gátu aðlagað sig lífi á landi áttu því auðvelt með ná þar fótfestu þar eð samkeppni var engin. Eitt eða fleiri tímamótaskref í aðlögun geta því hafa hleypt þessari þróun af stað og þá jafnvel í óbreyttu umhverfi. Og vissulega er ekki nauðsynlegt að gera ráð fyrir að þessi mikilvæga vistfræðilega breyting hafi orðið vegna breytinga á loftslagi.


Froskdýr komu svo seint fram á devontímabilinu að þau gegna ekki neinu mikilvægu vistfræðilegu hlutverki á þessu tímabili. Það voru kola- og perm-tímabilin sem kallast geta tímabil froskdýra. Engu að síður áttu einkennisdýr þeirra tímabila ættir sínar að rekja til Ichthyostega síðdevontímabilsins eða líkra ættkvísla.


Í Celsíusfjalli norðan Meistaravíkur á Austurströnd Grænlands ◊. fannst steingervingur frumstæðs froskdýris, Acanthostega gunnari. Steingervingurinn fanst í 380 Má gömlu seti (ORS)


Árið 2004 fannst steingervingur á Ellemersey í Kanada , Tiktaalik roseae (≈ 375 Má), sem hjálpar líklega til að brúa bilið milli fiska (Eusthenopteron), og ferfætlinga [tetrapod], Ichthyostega. Steingervingurinn er frá fyrsts hluta síðdevon og því 2 til 3 millljónum yngri en Panderichthys.


Sjá fyrstu landdýr.


Sjá graf sem sýnir styrk súrefnis: ◊.