leysingavatn: [En: meltwater; Dk: smeltevand; De: Schmelzwasser] er vatn sem losnar við það að snjór eða ís í jöklum bráðnar. Í flestum tilfellum flæðir það fram í lækjum og ám við leysingar á vorin eða hlýindakafla að vetri til. Þetta sést vel á árstíðasveiflu í rensli drag- og jökuláa. ◊.
Leysingavatn jökla steypist ýmist niður í jökulsprungur, jökulkvarnir eða safnast fyrir í jökultjörnum og rennur þaðan fljótlega til sjávar. Leysingavatn jöklanna sígur líka niður í hjarnlagið ◊ og geymist þar án þess að frjósa vegna einangrunar nýsnævar sem fellur á jökulinn. Þar getur það því myndað þar svokallaðan fjölæran veiti.
Slíkt grunnvatnslag hefur nýlega fundist undir yfirborði suðausturhluta Grænlandsjökuls á 70.000 km2 svæði sem samsvarar ⅔ af flatarmáli Íslands (103 þús. km2). Vatnsborðið í hjarnlaginu er á 5 - 50 m dýpi og er talið að það geti nú bætt við sig ∼ 322 til ∼ 1.289 Gt af vatni. (1 Gt = 1 km3 af vatni).1,2