landrek: [continental drift] er hreyfing eða færsla á meginlöndum Jarðar um jarðkúluna. Vangaveltur í þessa veru voru líklega fyrst settar fram árið 1596 af Abreham Ortelius (1527 – 1598) ◊ en hann var flæmskur kortagerðarmaður og höfundur fyrsta atlasins eða landabréfabókarinnar. Franskur landfræðingur Antonio Snider-Pellegrini (1802–1885) ◊ gerði einnig kort sem sýndi hvernig hægt var að leggja Ameríkurnar að Evrópu og Afríku. Hann hélt því fram að öll meginlönd hefðu legið saman á síðkolatímabilinu [Pennsylvanina Period 323.2 - 298.9 Má]. Máli sínu til stuðnings sýndi hann fram á að plöntusteingervingar sömu tegunda findust í kolalögum Evrópu og BNA.
Þekktust er þó tilgáta þýska veðurfræðingsins Alfreds Wegener (1880 – 1930) ◊ um stórmeginlandið Pangeu ◊ sem hann setti fram 1912 – sama ár og hann lagði upp í leiðangur um þvert Grænland ásamt J. P. Koch, Vigfúsi Sigurðssyni Grænlandsfara og Lars Nielsen Larsen — „Gennem den hvide Ørken : den danske Forskningsrejse tværsover Nordgrønland, 1912-13“. Wegener tókst ekki að sýna fram á hvaða kraftar væru þar að verki þrátt fyrir stuðning breska jarðfræðingsins Arthur Holmes (1890 – 1965).
Þessar tilgátur Wegeners áttu ekki upp á pallborðið hjá jarðfræðingum næstu áratugina. Það var ekki fyrr en niðurstöður rannsókna bentu til þess að rétt væri að vekja þær á ný til lífsins. Tæki til dýptarmælinga höfðu þróast hratt á árum seinni heimstyrjaldarinnar og á árunum eftir stríðið. Með hjálp sjálfritandi dýptarmæla sýndu Maurice Ewing1 og Bruce Heezen2 (1924 – 1977) árið 1953 að mikil fjöll virtust rísa upp af botni Atlantshafsins.
Marie Tharp (1920 – 2006) ◊ frá Ypsilanti í Michigan — konan sem fann „hryggjstykki“3 Jarðar — hafði lagt mikið á sig til að leggja stund á jarðfræði en möguleikarnir voru ekki miklir fyrir konu í slíku starfi á þessum árum. Hún fékk þó að lokum stöðu 1948 við Columbia háskólanum í New York þar sem hún vann sem tækniteiknari fyrir Maurice Ewing og Bruce Heezen sem þá vara framhaldsnemi við skólann. Marie Tharp sat næstu árin við langt vinnuborð ◊ vopnuð blýanti og reglustiku og færði niðurstöður mælinganna inn á kort. ◊ Hún lauk við kort af Norður-Atlantshafi 1957 ◊ sem sýndi greinilega að mikill fjallgarður lá eftir hafsbotninum miðjum.
Marie Tharp benti Heesen á mikinn dal eftir fjallgarðinum miðjum sem henni fannst líkjast sigdalnum mikla í Austur Afríku.4 Hann vísaði þessari hugmynd strax á bug sem „vísindalegri falskenningu“. Hún lýsti því einnig að viðbrögð vísindamanna hefðu ýmist verið undrun, tortryggni eða jafnvel fyrirlitning.
Árið 1961 lauk Marie Tharp við kortið af Suður-Atlantshafi ◊ og árið eftir setti Harry Hess5 fram botnskriðskenninguna [seafloor-spreading]. Því má halda fram að vinna hennar hafi flýtt fyrir skilningi manna á flekakenningunni sem síðar varð alls ráðandi í þessum fræðum og olli því að endurskrifa þurfti kennslubækur í jarðfræði.
Meira um landrek, botnskriðskenninguna og flekakenninguna.
Nokkur rök sem styðja landrek.