landrek: [continental drift] er hreyfing eða færsla á meginlöndum Jarðar um jarðkúluna. Vangaveltur í þessa veru voru líklega fyrst settar fram árið 1596 af Abreham Ortelius (1527 – 1598) en hann var flæmskur kortagerðarmaður og höfundur fyrsta atlasins eða landabréfabókarinnar. Franskur landfræðingur Antonio Snider-Pellegrini (1802–1885) gerði einnig kort sem sýndi hvernig hægt var að leggja Ameríkurnar að Evrópu og Afríku. Hann hélt því fram að öll meginlönd hefðu legið saman á síðkolatímabilinu [Pennsylvanina Period 323.2 - 298.9 Má]. Máli sínu til stuðnings sýndi hann fram á að plöntusteingervingar sömu tegunda findust í kolalögum Evrópu og BNA.


Þekktust er þó tilgáta þýska veðurfræðingsins Alfreds Wegener (1880 – 1930) um stórmeginlandið Pangeu sem hann setti fram 1912 – sama ár og hann lagði upp í leiðangur um þvert Grænland ásamt J. P. Koch, Vigfúsi Sigurðssyni Grænlandsfara og Lars Nielsen Larsen — „Gennem den hvide Ørken : den danske Forskningsrejse tværsover Nordgrønland, 1912-13“. Wegener tókst ekki að sýna fram á hvaða kraftar væru þar að verki þrátt fyrir stuðning breska jarðfræðingsins Arthur Holmes (1890 – 1965).


Þessar tilgátur Wegeners áttu ekki upp á pallborðið hjá jarðfræðingum næstu áratugina. Það var ekki fyrr en niðurstöður rannsókna bentu til þess að rétt væri að vekja þær á ný til lífsins. Tæki til dýptarmælinga höfðu þróast hratt á árum seinni heimstyrjaldarinnar og á árunum eftir stríðið. Með hjálp sjálfritandi dýptarmæla sýndu Maurice Ewing1 og Bruce Heezen2 (1924 – 1977) árið 1953 að mikil fjöll virtust rísa upp af botni Atlantshafsins.


Marie Tharp (1920 – 2006) frá Ypsilanti í Michigan — konan sem fann „hryggjstykki“3 Jarðar — hafði lagt mikið á sig til að leggja stund á jarðfræði en möguleikarnir voru ekki miklir fyrir konu í slíku starfi á þessum árum. Hún fékk þó að lokum stöðu 1948 við Columbia háskólanum í New York þar sem hún vann sem tækniteiknari fyrir Maurice Ewing og Bruce Heezen sem þá vara framhaldsnemi við skólann. Marie Tharp sat næstu árin við langt vinnuborð vopnuð blýanti og reglustiku og færði niðurstöður mælinganna inn á kort. Hún lauk við kort af Norður-Atlantshafi 1957 sem sýndi greinilega að mikill fjallgarður lá eftir hafsbotninum miðjum.


Marie Tharp benti Heesen á mikinn dal eftir fjallgarðinum miðjum sem henni fannst líkjast sigdalnum mikla í Austur Afríku.4 Hann vísaði þessari hugmynd strax á bug sem „vísindalegri falskenningu“. Hún lýsti því einnig að viðbrögð vísindamanna hefðu ýmist verið undrun, tortryggni eða jafnvel fyrirlitning.


Árið 1961 lauk Marie Tharp við kortið af Suður-Atlantshafi og árið eftir setti Harry Hess5 fram botnskriðskenninguna [seafloor-spreading]. Því má halda fram að vinna hennar hafi flýtt fyrir skilningi manna á flekakenningunni sem síðar varð alls ráðandi í þessum fræðum og olli því að endurskrifa þurfti kennslubækur í jarðfræði.


Meira um landrek, botnskriðskenninguna og flekakenninguna.


Nokkur rök sem styðja landrek.



Heimildir:
1 Wikipedia.org
< https://en.wikipedia.org/wiki/Maurice_Ewing >
2 Wikipedia.org
< https://en.wikipedia.org/wiki/Bruce_C._Heezen >
3 Scientific American.com
< http://blogs.scientificamerican.com/history-of-geology/july-30-1920-marie-tharp-the-woman-who-discovered-the-backbone-of-earth/ >
4 Eliza Richardson, Penn State háskólanum
Credit: Courtesy of the Lamont-Doherty Earth Observatory (Felt, H. (2012)
< https://www.e-education.psu.edu/earth520/node/1797 >
5 Wikipedia.org
< https://en.wikipedia.org/wiki/Harry_Hammond_Hess >