Krafla er sú íslensk megineldstöð sem mest hefur verið rannsökuð. Hún er gegnumskorin af 80 km löngum sprungusveimi ◊. eldstöðvakerfi. og í henni er stór sigketill eða askja. Veggir Kröfluöskjunnar rísa nú lítið sem ekkert yfir umhverfi sitt enda hefur askjan að mestu fyllst af yngri hraunum auk þess sem veggirnir hafa rofist og lækkað. Hraun úr ólívínþóleiíti eru á jöðrum svæðisins í Þrengslaborgum, (Laxárhraun yngra) Ketildyngju (Laxárdalshraun eldra) og Þeistareykjabungu. Apalhraunið Hraunbunga norður af Lúdent er úr íslandíti. Rýólít er í Hlíðarfjalli og Jörundi og auk þess finnst flikruberg í Hvammsstóðshöfða.


Mikil eldsumbrot voru á Kröflusvæðinu á fyrri hluta 18. aldar. Þau hófust 17. maí 1724 með mikilli gufusprengingu vestan undir fjallinu Kröflu þar sem nú er sprengigígurinn Víti og stóðu eldsumbrotin nær samfellt til ársins 1729. Þessi eldsumbrot ganga undir nafninu Mývatnseldar. Í þeim rann kvika niður að austurströnd Mývatns og myndaði eitt fallegasta helluhraun landsins, Eldhraun. Löngu seinna eða 20. desember árið 1975 hófst svo aftur mikil hrina eldvirkni í Kröflu. Seinasta gosið í þeirri hrinu og það 9. varð 1984 í nágrenni Leirhnúks sem er í miðri öskjunni. Á þessa goshrinu, sem gengur undir nafninu Kröflueldar frá 1975 - 1984, má líklega líta sem einn þátt af mörgum í landrekshrinu á Norður-Atlantshafssvæðinu. Nú er líklegt að þessum eldsumbrotum sé lokið.


Með rannsóknum á Kröflueldum kom í ljós að bráðin kvika rann inn í kvikuhólfið undir öskjunni. Við það varð landris sem náði vissu hámarki og endaði þá ýmist með gosi ◊. og kvikuhlaupi eða kvikuhlaupi eingöngu norður og suður eftir togsprungunum. Kvikuhlaupum var fyrst lýst við Kröfluelda. Með kvikuhlaupi er átt við að bráðin kvikan í þrónni eða kvikuhólfinu leiti inn í togsprungur sprungusveimsins og flæði um þær neðanjarðar út til enda sveimsins.


Sjá eldgos eftir 1900



Til baka í öskjur.