Basísk þeyti- og sprengigos verða einkum þegar vatn á greiða leið að kvikunni í gígnum eða gosrásinni. Slíkt gerist helst þegar gýs í slökkum eða dældum með grunnum vötnum og vatnsósa jarðlögum. Við slíkar aðstæður gjósa eldstöðvarnar eingöngu gjósku og lofttegundum. Þeytigos af þessu tagi geta breyst í hraungos eða blandgos ef vatn hættir að renna að kvikunni í gosopinu eða gosrásinni.
Eldstöðvar af þessari gerð kallast ýmist hverfjöll, ker eða sprengigjár.