Hverfjall, öskugígur eða öskugígaröð eru eldstöðvar sem myndast við gufusprengigos þegar basaltkvika kemst í snertingu við vatn. Ýmist flæðir vatn viðstöðulítið inn í gíginn eða grunnvatn berst auðveldlega að gosrásinni um lek berglög og sprungur. Besta dæmið um þessa gerð eldstöðva á Íslandi er Hverfjall við Mývatn sem varð til í gosi fyrir tæpum 3000 árum. Þá gaus á um 1800 m langri sprungu sem syðst náði að teygja sig út í grunnt stöðuvatn og jarðlög með miklu grunnvatnsflæði. Við slíkar aðstæður tætist hraunbráðið í sundur vegna gufusprenginga og verður að ösku sem hleðst upp umhverfis uppvarpið. Gígbarmar Hverfjalls eru nánast hringlaga um 90 - 150 m háir og þvermál gígsins er rúmlega 1000 m. Í gosum sem þessum berst askan með tvennu móti frá gígnum. Annars vegar sem öskufall úr gosstrókum og hins vegar sem ösku- eða eðjuflóð vellandi niður gígbarmana. Öskuflóðin frá Hverfjalli náðu rúma 3 km út frá gígnum. Lengra frá gígnum barst aðeins gjóska.


Sömu gerðar og frá öndverðum nútíma eru Lúdent skammt frá Hverfjalli og Hrossaborg austur við Jökulsá á Fjöllum.


Þekktasta dæmið um gjóskugígaröð eru Vatnaöldur vestan Veiðivatna. Þar varð gos um 871 ± 2 e.Kr. og í því gosi myndaðist efri hluti tvílita öskulagsins sem gengur undir nafninu landnámslag. Landnámslagið Neðri hluti þess er ljós og er kominn frá Hrafntinnuhrauni en efri hlutinn er svartur og er frá Vatnaöldum eins og fyrr getur.


Til baka í basísk sprengigos.