Hverfjall, öskugígur eða öskugígaröð eru eldstöðvar sem myndast við gufusprengigos þegar basaltkvika kemst í snertingu við vatn. Ýmist flæðir vatn viðstöðulítið inn í gíginn eða grunnvatn berst auðveldlega að gosrásinni um lek berglög og sprungur. Besta dæmið um þessa gerð eldstöðva á Íslandi er Hverfjall við Mývatn sem varð til í gosi fyrir tæpum 3000 árum. ◊ ◊ ◊ ◊ Þá gaus á um 1800 m langri sprungu sem syðst náði að teygja sig út í grunnt stöðuvatn og jarðlög með miklu grunnvatnsflæði. Við slíkar aðstæður tætist hraunbráðið í sundur vegna gufusprenginga og verður að ösku sem hleðst upp umhverfis uppvarpið. Gígbarmar Hverfjalls eru nánast hringlaga um 90 - 150 m háir og þvermál gígsins er rúmlega 1000 m. Í gosum sem þessum berst askan með tvennu móti frá gígnum. Annars vegar sem öskufall úr gosstrókum og hins vegar sem ösku- eða eðjuflóð vellandi niður gígbarmana. Öskuflóðin frá Hverfjalli náðu rúma 3 km út frá gígnum. Lengra frá gígnum barst aðeins gjóska.
Sömu gerðar og frá öndverðum nútíma eru Lúdent skammt frá Hverfjalli og Hrossaborg ◊ austur við Jökulsá á Fjöllum.
Þekktasta dæmið um gjóskugígaröð eru Vatnaöldur ◊ vestan Veiðivatna. Þar varð gos um 871 ± 2 e.Kr. og í því gosi myndaðist efri hluti tvílita öskulagsins sem gengur undir nafninu landnámslag. Landnámslagið ◊ Neðri hluti þess er ljós og er kominn frá Hrafntinnuhrauni ◊ ◊ en efri hlutinn er svartur og er frá Vatnaöldum eins og fyrr getur.