Ker, sem á vísindamáli kallast maar, verða til við gufusprengingar á sívalri gosrás þegar eingöngu gýs gosgufum og bergmylsnu sem rifnað hefur úr gosrásinni. Oft er sprengikrafturinn svo mikill að upphleðslan verður lítil sem engin á börmunum. Kerin eru yfirleitt svo djúp að þau ná niður fyrir grunnvatnsborð og vatn safnast því fyrir í gígnum að gosi loknu. ◊
Strangt tiltekið fellur líklega enginn íslenskur sprengigígur undir þessa skilgreiningu því þeir hafa flestir gosið gjósku eða hraunspýjum úr ferskri kviku. Grænavatn ◊ ◊. í Krýsuvík kemst því líklega næst því að kallast ker. Í þennan flokk er einnig venja að flokka gígvötnin í Veiðivötnum, Ljótapoll og Hnausahyl. Heiti sitt dregur þessi gerð eldfjalla af Kerinu í Tjarnarhólum í Grímsnesi sem lengi vel var líka talið til þeirra þó síðar hafi komið í ljós að það er venjulegur gjall- og klepragígur sem hraun hefur runnið frá.
Gígvötnin í Veiðivötnum og Ljótipollur ◊ mynduðust í miklu gosi 1477. Gosið varð á sprungu sem nær frá norðvestanverðum Vatnajökli um Veiðivötn og þaðan suðvestur um Ljótapoll til Laugahrauns í Landmannalaugum. ◊ Suðvestast á sprungunni mynduðust Laugahraun, sem er súrt hraun úr rýólíti, og Norðurnámshraun, sem er ísúrt hraun úr dasíti. Norðar gaus þóleiítbasalti. Frá Ljótapolli norðaustur eftir Veiðivatnadældinni til Hraunvatna norðvestan Litlasjávar átti vatn greiðan aðgang að kvikunni í gígrásinni og byrjaði gosið þar því víðast hvar sem þeytigos. Seinna þegar vatnið þvarr breyttist gosið í flæðigos og fylltu hrauntjarnir suma gígana. Jafnvel mynduðust gervigígar þar sem hraunið rann út á blauta gjósku eða út í grunnt stöðuvatn.
Sjá skilgreiningu og erlend dæmi.