Eldský - flikruberg (eisuberg): [nuée ardente] Í súrum gosum megineldstöðva er kvikan eða hraunbráðið oft svo seigt að það stíflar gígrásina. Gosgufur blandaðar gjósku ná þá oft að brjóta sér leið til yfirborðsins meðfram gígfyllingunni. Við slíkar aðstæður myndast eldský sem er bland af funheitum gufum og glóandi kvikufroðu. Slík eldský, svokölluð gjóskuhlaup (eisuflóð), geysast niður hlíðar eldfjallanna með ógnarhraða og þegar þau staðnæmast mynda þau oft sambrædda gjósku með aflöngum teygðum vikurflygsum sem nefnist flikruberg (eisuberg). Þessi gos eru oft nefnd peleísk eftir gosi sem varð í eldfjallinu Pelé á eynni Martinique í Vestur-Indíum vorið 1902. ◊ Í því gosi eyddist höfuðborg eyjarinnar, St. Pierre, og íbúarnir um 30.000 að tölu fórust. ◊ ◊
Árið 1912 gaus eldfjallið Novarupta í Katmai-þjóðgarðinum í Alaska u.þ.b. 30 km3 af glóandi ösku og vikri á 60 klst. Gjóskuhlaupið fyllti Tíu þúsund reykja dal“ (Valley of Ten Thousand Smokes). ◊ ◊ Gjóskan í þessu gosi var þrítugfalt meiri en sú gjóska sem myndaðist í stórgosinu sem varð í St. Helens í Bandaríkjunum 1980 en það var í ætt við peleískt gos. ◊
Ekki er vitað til að þess að peleískt gos hafi orðið hér á landi síðan ísöld lauk, en flikruberg frá ísöld og líklega ættað úr eldkeilu, sem stóð þar sem nú eru Tindfjöll og Tindfjallajökull, finnst í Þórsmörk. ◊ ◊ ◊ Einnig er nokkuð um flikruberg í hraunlagastafla blágrýtismyndunarinnar. Þar ber mest á svokölluðu skessulagi, sem kennt er við fjallið Skessu sunnan Reyðarfjarðar. Lag svipaðrar gerðar sést vel á norðurströnd Berufjarðar utan Gautavíkur — Blábjörg. ◊ ◊ ◊
Sjá gjóskuhlaup.