Holufyllingar — síðsteindir

Til holufyllinga teljast þær steindir sem fallið hafa út í vatni eða gufu í sprungum og öðrum holrúmum neðanjarðar eða á yfirborði jarðar.


Úrkoma seytlar niður í berggrunninn og fyllir þar glufur og holur og kallast þá grunnvatn. Hluti grunnvatnsins nær að komast á mikið dýpi. Eftir því sem vatnið rennur dýpra hitnar það af snertingu við bergið og þá einkum við kólnandi innskot. Bergið, sem vatnið leikur um, er að mestum hluta gosberg, hraunlög, alsett loftbólum og sprungum sem myndað hafa mikinn hraunlagastafla. Íslenskt gosberg leysist fremur auðveldlega upp í rennandi vatni og þeim mun hraðar eftir því sem vatnið er heitara. Steinefnin mynda lausn og fljóta burt með vatninu sem jónir en nýjar steindir, einkum leirtegundir, koma í staðinn. Þannig fyllast smásæ holrými í berginu og við það þéttist það og breytir um áferð og lit. Þegar það gerist er sagt að bergið ummyndist. Það fer eftir gerð bergsins og hitastigi vatnsins hversu hratt þetta gerist. Í blágrýtisstaflanum eru víða ummyndunarsvæði umhverfis fornar megineldstöðvar.


Þegar vatnið kólnar eða breytingar verða á þrýstingi falla jónirnar út úr lausninni og mynda þá nýjar steindir í holum og glufum eða jafnvel í lækjum og við gufuaugu á yfirborði jarðar. Steindir, sem myndast á þennan hátt, eru nefndar holufyllingar eða síðsteindir. Berg þar sem loftbólur hafa fyllst af holufyllingum kallast möndluberg.


Gerðir steindanna, sem myndast í holunum, fara eftir hitastigi vatnsins og eftir því um hvers konar bergmyndanir vatnið seytlaði þegar steinefnin leystust upp. Holufyllingar í þóleiíti eru gjarnan kvars, kalsedón, ópall, seladonít og kalsít en minna er um zeolíta, t.d. finnast þar varla analsím. Í ólívínbasalti og dílóttu basalti má finna zeólíta og oft einnig kalsít. Helstu zeolítarnir eru: Thomsonít, chabasít, analsím og mesólít. Lítið er þar um kalsít og kvars og kalsedón vantar yfirleitt.


Ummyndun bergs verður einkum við hitastig á bilinu 50 - 350°C og því verður hún mest í rótum megineldstöðva því að einungis þar er að finna hitastig yfir 250°C. Hröðust er ummyndunin á meðan virkt háhitasvæði er í megineldstöðvunum.


Íslenskum holufyllingum má skipta í 6 flokka eftir kristalbyggingu og myndunarskilyrðum:


Kvarssteindir Zeólítar
Karbónöt ásamt     
fleiri söltum
Leirsteindir
Málmsteindir Háhitasteindir