Kvarsholufyllingar

Nokkrar tegundir og afbrigði kvarssteinda finnast hér á landi sem holufyllingar. Kvars er ýmist grófkristallað, smákristallað (kristöllun er þá aðeins greinanleg í smásjá) eða ókristallað (þ.e. myndlaust). Sé kísiloxíðið (SiO2) hreint eru kristallarnir litlausir, hvítir eða gráir. Blöndun aðkomuefna gefur steindunum lit t.d. grænan eða rauðan. Harka kvarssteinda er 7, nema ópals þar sem hún er 5 1/2 - 6 vegna bundins vatns í kristalnum en það getur verið á bilinu 3 - 13%. Saltsýra hefur engin áhrif á kvarssteindir.


|einkenni|


Kvars er mjög algeng holufylling í nágrenni megineldstöðva og í þóleiíthraunum. Eftir kristöllun má skipta kvarsholufyllingum í flokka:

Grófkristallað

Bergkristall   er vatnstært kristallað kvars. Hann er algengur hér á landi og hafa fundist kristallar sem eru allt að nokkrir cm á lengd. Reykkvars er brúnleitt, litað aðkomuefnum. Nokkuð algengt.


Ametyst er fjólublátt, fremur sjaldgæft hér en hefur fundist í Hornafirði, Lóni, Borgarfirði eystra og Gerpi.

Ókristallað (myndlaust)

Kalsedón  (glerhallur, draugasteinn) er oftast hvítleitur, gráleitur eða brúnn. Hann er mjög algengur sem holufyllingar í þóleiíthraunum á Austfjörðum. Í holufyllingum byrjar kalsedón að myndast sem skán á holuveggjunum og er hann þá oft alsettur gúlum og dröngum. Innar myndast oft agat og innst bergkristall.


Kalsedón er oft kallaður glerhallur og á það einkum við um kalsedónsteina sem hafa brotnað úr sjávarhömrum og eru orðnir lábarðir eftir að hafa slípast í ölduróti fjörunnar.


Onyx er lagskiptur og er nánast afbrigði kalsedóns, með hvítar og svartar rendur. Onix-nafnið er oft notað ranglega yfir efni í innfluttum vörum úr steini, sem boðnar eru til sölu.


Nafnið draugasteinn er sagt dregið af því að neisti myndast þegar kalsedónsteindum er slegið saman.


Agat myndar hringlaga rendur og er afbrigði kalsedóns eins og onyx.


Eldtinna (tinna) finnst ekki hér á landi, en er algeng í krítarlögum erlendis eins og í Møns Klint og Stevens Klint í Danmörku.   Hún er talin mynduð úr leifum kísilsvampa sem lifðu á botni Krítarhafsins mikla; [flint].


Jaspis er svipaður kalsedón og ávallt mengaður aðkomuefnum t.d. járni. Jaspis er mattur og getur ýmist verið rauður, grænn eða móleitur.

Ópall

|einkenni|


Hér á landi er ópall yfirleitt litaður aðkomuefnum og því hálf- eða ógagnsær. Eins og sést á formúlunni er vatn í kristalgrindinni og því er steindin bæði mýkri og léttari en jaspis. Nafnið er komið úr sanskrít: Ópala = eðalsteinn. Sjá meira um ópal.


Hverahrúður er kísilhrúður sem fellur út við yfirborð úr vatni sem náð hefur háum hita djúpt í jarðhitakerfum. Hverahrúður er t.d. við Geysi. Með tímanum rennur hverahrúðrið saman og myndar ópal.


Viðarsteinn er forn viður sem steinrunnið hefur, einkum í rýólítösku eða flikrubergi.


Sjá um kvars frumsteindir.