Fórnarlömb útdauðans

Á landi voru risaeðlurnar helstu fórnarlömbin en í höfum voru það ammonítar og synd skriðdýr, svaneðlur og sundeðlur. Rudist-samlokur dóu út ásamt nokkrum tegundum samloka. Nannosvif og sviflægir götungar guldu mikið afhroð en lifðu þó af og náðu sér að nokkru aftur á strik á nýlífsöldinni.


Steingervingaannáll krítartímabilsins bendir til þess að líffræðilega kreppan sem markar lok krítar hafi verið afar flókin. Mörgum tegundum fækkaði fyrir lok krítartímabilsins en aðrar dóu snögglega út alveg í lok tímabilsins. Þetta einkennir raunar bæði líf á landi og í sjó. Einnig virðist útdauðinn hafa komið verst niður á lífríki hitabeltisins líkt og í fyrri útdauðum.


Botnsjávardýrum eins og rudist-samlokum sem byggðu rif á krít hafði hrakað mjög á Maastricht-tímanum, síðasta stigi krítartímabilsins, og hexakórallar tóku við hlutverki þeirra upp frá því.


Loftslagskólnun virðist hafa orðið því að hitabeltissamlokur og sniglar dóu út en tegundir sem lifðu í kaldari sjó komu í stað þeirra. Sums staðar í setlögum má sjá að ammónítum byrjaði að hnigna 4 - 5 Má fyrir lok krítar og síðustu ammónítarnir finnast 12 m neðan KT-markanna þar sem iridínfrávikið er að finna. Myndunarhraði setsins bendir til þess að þeir hafi lifað um 100.000 árum fyrir lok krítartímabilsins.


Í sjónum er svo að sjá sem aðeins götungar og nannósvif með einfaldri lögun skelja hafi lifað útdauðann af. Hitabeltistegundir dóu út en þær sem lifðu í kaldari sjó færðu sig nær miðbaug. E.t.v hefur loftsteinn veitt mörgum tegundum náðarhöggið.