KT-mörkin: mörk krítar- og tertíertímabilsins eru einkum þekkt fyrir mikinn útdauða en í lok tímabilsins urðu margar tegundir aldauða og náðu ekki að lifa upphaf tertíer fyrir 66 milljónum ára. ◊.


KT-mörkin eru miðuð við leirlag sem skilur jarðmyndanir frá krít og tertíer. Þetta lag er að finna í bergi t.d. nálægt Gubbio á Ítalíu ◊. og í Stevns Klint á Sjálandi í Danmörku, „Fiskeleret“. Í þessu leirlagi finnst iridín-frávik sem gæti stafað af falli stórs loftsteins á jörðina eða af gríðarlegri eldvirkni.


Útdauðinn við KT-mörkin hefur vakið mesta athygli útdauðanna vegna þess að í honum hurfu risaeðlur, fiskeðlur og flugeðlur ásamt ammónítum af sjónarsviðinu. Alls er talið að um 75% allra tegunda hafi orðið aldauða en í útdauðanum mikla í lok perm hurfu 96% tegudna sjávardýra og 75% af ættum hryggdýra á landi.


Margar kenningar hafa verið uppi um hvað hafi valdið útdauða tegundanna og ber þar hæst að stór loftsteinn hafi lent á jörðinni, að stórkostlegt afflæði sjávar hafi gerst eða að gífurleg eldvirkni hafi verið orsökin.


KT-mörkin er að finna víðar eins og t.d. við Zumaya á norðurströnd Spánar.