Loftslagssveiflur á kola- og permtímabilinu

Það er ljóst að útbreiðsla skóga á síðdevon hafði þá þegar dregið úr styrk CO2 vegna aukinnar veðruna á landi. ◊.


Feykileg kolamyndun á síðkola-tímabilinu hlýtur einnig að hafa dregið úr styrk CO2 í andrúmsloftinu og jafnframt dregið út gróðurhúsaáhrifum. Það er því varla tilviljun að myndun mikilla skóga, fenja og mólaga annars vegar og jökulmyndun á Gondvanalandi hins vegar haldist í hendur á þessum tíma.


Þegar loftslag þornaði á síðkola- og permtímabilinu hlýtur styrkur CO2 að hafa hækkað af amk. tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hefur þurrt loftslag dregið úr veðrun og í öðru lagi hafa mýrar og fen þornað upp þannig að greftrun kolefnis minnkaði og efstu lög mýranna oxuðust. Því má ætla að aukið magn CO2 hafi bundið endi á jökulmyndun seinast á fornlífsöldinni.

Útdauðarnir í lok Perm

Fornlífsöld endaði með mesta útdauða allra tíma. Þetta var fyrsti útdauðinn eftir að hryggdýr höfðu numið land og á meðal fórnarlambanna voru 20 ættir fjórfætlinga sem dóu út áður en trías rann upp.


Í sjó hurfu fusulinid götungar, sem voru útbreiddir í permfánu hafanna, rúgósa- og töfluskiptir kórallar. Þríbrotar urðu aldauða en þeim hafði að vísu stöðugt farið fækkandi. Ammonítar voru hætt komnir því að sárafáar tegundir þeirra lifðu af. Armfætlur, mosadýr og sæliljur urðu fyrir miklum áföllum. Einnig hjó útdauðinn stór skörð í raðir snigla.


Perm-útdauðinn, sem áður var talinn einn atburður, virðist greinast í tvo útdauða. Sá fyrri gerðist við lok Guadalup-skeiðsins (260 Ma - 251 Ma?) - næstsíðasta skeið Perm. Á eftir fylgdi svo stærri útdauði við lok Perm.


Flestar tegundir lífvera sem byggðu rif hurfu snögglega í fyrri útdauðanum og sömu sögu er að segja um ¾ tegundir fusulinid-götunga. Þetta á einkum við um stærri gerðir götunga (yfir 6 mm) og ekki er ólíklegt að þörungar, sem þeir lifðu í sambýli með, hafi dáið út.


Svo er að sjá sem um 70% tegunda sjávarlífvera hafi dáið út við lok Guadalup-skeiðsins. Í setbergi frá Guadalup-skeiðinu í Síberíu er mikið er um fallsteina sem segja okkur að borgarísjakar hafi verið þar á reki. Bendir það til jökuls á norðurpólnum og kólnandi loftslags.

Seinni útdauðinn við lok perm

Áður en mönnum var ljóst að um tvo útdauða væri að ræða í lok perm, en ekki einn eins og lengi var talið, héldu vísindamenn að 90 til 95% tegunda sjávardýra hefðu orðið aldauða. Nú lítur hins vegar svo út að þetta hafi aðeins verið um 80% en eigi að síður er þetta stærsti útdauði frá byrjun kambríum.


Sjá nánar um útdauðana í lok perm.