hádegisbaugur: [En: meridian; De: Meridian m] er annað nafn á lengdarbaug en lengdarbaugar liggja á milli póla Jarðar og eru þar sem sólin er á hádegi.


Í San Petronio basilíkunni í Bologna á Ítalíu er hin mikla Meridian lína [La meridiana di San Petronio] sem nokkurs konar sólúr. Það var hannað og gert 1655 eftir útreikningum og teikningum hins fræga stjörnufræðings Giovanni Domenico Cassini sem kenndi stjörnufræði við háskólann þar í borg. Árið 1776 var stjörnufræðingurinn Eustachio Zanotti fenginn til að gera við og endursmíða sólúrið.


Í vinstra hliðarskipi basilíkunnar er málmteinn úr þremur málmþynnum – látún, eir, látún – og er hann greiptur í flísalagt gólfið og fylgir hádegisbaug [meridian] frá norðri til suðurs [11°20' 39" E; (44° 29' 37",6 N)]. Í þaki basilíkunnar, lóðrétt yfir syðri enda teinsins er örlítið gat sem sólin nær að skína í gegnum og fellur geislinn á teininn á hádegi dag hvern. Þess vegna er líklega á ensku talað um AM [ante meridiem] fyrir hádegislínu; PM [post meridiem] eftir hádegislínu.


Þetta mikla sólúr segir ekki aðeins til um hádegi líðandi dags því að einnig má sjá hvernig sólargeislinn færist eftir málmteininum frá sumarsólhvörfum til vetrarsólhvarfa.



Ójafnar, skammvinnar, árstíðabundnar, gyðinglegar eða klukkustundir háðar gangi himintungla: Í þessum tilfellum er tíma dagsbirtu og myrkurs skipt niður í 12 jöfn bil hvorri. Klukkustundir dagsins voru taldar frá sólarupprás og klukkustundir nætur frá sólarlagi. Þetta var algengasta aðferðin á miðöldum og endurreisnartímabilinu á 14.–16. öld [renaissance] í Evrópu. „Noon“ er andráin þegar sólin er hæst á himni á miðjum degi; sólarupprás gerist 6 klukkustundum fyrr og sólsetur 6 klukkustundum síðar. Klukkustundir dags og nætur verða því ójafnar nema við vor- og haust-jafndægur. Mismunurinn er háður breiddargráðu staðar og tíma árs.



Sjá staðarmiðtíma, sumartíma og UTC