Jafnvægishreyfingar jarðskorpunnar

Jarðsagan segir okkur að yfirborð jarðar hafi sífellt verið að breytast. Rekhryggir mynda til dæmis úthafsbotn um leið og setlög á hafsbotni kýtast saman í fellingar og bæta við meginlöndin á öðrum stöðum. Mjúk jarðlög kýtast þannig saman og mynda fellingar, líkt og gerist þegar ýtt er við dúk á borði. Vegna þess hve setlögin eru tiltölulega eðlislétt fljóta fellingarnar á eðlisþungu möttulefninu og rísa upp sem himinháir fellingafjallgarðar. Í slíkum fellingum er nú öll hæstu fjöll jarðar að finna. Öldukambarnir nefnast andhverfur (antíklínur) en öldudalirnir samhverfur (sýnklínur), samanber a-hluta myndar


Um leið og land rís úr sæ byrja roföflin að mylja niður og færa mylsnuna til hafs. Himinháir fellingafjallgarðar hverfa því með tímanum og mynda landgrunnsset eða jafnvel sléttur þar sem áður voru flóar eða innhöf. Sveigjanleg jarðskorpan sem flýtur á seigfljótandi möttulefninu er viðkvæm fyrir þyngdarbreytingum og breyting á einum stað kallar jafnan á breytingar annars staðar til mótvægis. Ótal dæmi sýna að sjór hefur ýmist flætt af landi þegar um landris eða lækkandi sjávarstöðu hefur verið að ræða eða hann flæddi á land við landsig eða hækkandi sjávarstöðu. Kallast þetta áflæði [transgression] eða afflæði [regression]. Setlögin á Tjörnesi eru gott dæmi um þetta en þar skiptast á sjávarset með steingervingum sjávardýra og surtarbrandur en hann er leifar gróðurs sem vaxið hefur ofansjávar.


Við breytingar á sjávarstöðu og röskun jarðlaga rofna setlagaloturnar og mislægi myndast eins og mynd sýnir.


Eins og áður segir verður áflæði og afflæði ýmist þegar jarðskorpan annars vegar rís eða hnígur vegna jafnvægishreyfinga (isóstatískar hreyfingar) eða hins vegar þegar sjávarborð heimshafanna lækkar eða hækkar (eustatískar sjávarstöðubreytingar). Gott dæmi um þetta eru sjávarstöðubreytingar frá ísöld. Þær stöfuðu af röskun á flotjafnvægi jarðskorpunnar vegna þyngdar íssins. Einnig urðu þær vegna hækkunar og lækkunar á yfirborði heimshafanna eftir því hversu mikið vatn var bundið í ísnum.


Halli jarðlaga breytist oft við jarðskorpuhreyfingar. Lóðrétt jarðlag hefur 90° halla en lárétt 0° halla. Til að lýsa halla jarðlaga frekar eru notuð hugtökin strik og halli. Strik jarðlags er skurðlína þess við láréttan flöt og hallinn er hornréttur á það.

.

Sjá flotjafnvægi og sjávarstöðubreytingar..