Bólstraberg getur myndast bæði úr basískri og súrri kviku þegar hraunbráðið rennur í vatni. Við slíkar aðstæður kólnar yfirborð kvikunnar snögglega. Seigjan verður því mest á yfirborðinu og leitast hraunbráðið því við að mynda því sem næst kúlulaga form svo yfirborð verði sem minnst miðað við rúmmál. Yfirleitt ná bólstrarnir ekki að verða kúlulaga en líkjast einna helst vel úttroðnum koddum sem fletjast út vegna eigin þunga og eru því yfirleitt ílangir. Oft sjást tengsl á milli þeirra því líklegt er að hraunbráðið streymi úr einum bólstri í þann næsta. Bólstrarnir eru glerjaðir að utan en innar er fínkornótt blöðrótt berg sem er smástuðlað og vita stuðlarnir hornrétt á yfirborðið, þ.e. kólnunarflötinn. ◊ ◊ ◊
Þegar basísk hraun renna út í sjó eða stöðuvötn mynda þau oft stóra, fremur óreglulega bólstra. Við mikinn vatnsþrýsting í djúpu vatni eins og gerist við eldgos á hafsbotni eða undir þykkum jökli myndast reglulegir bólstrar. ◊ Oft mynda þeir margra metra þykkt bólstrabergslag þar sem bólstrarnir liggja hver um annan þveran og eru þeir oftast fremur smáir. Þannig myndanir eru algengar neðst í stöpum og bólstrabergshryggjum. Má sjá slík bólstrabergslög í Stapafelli á Reykjanesi, ◊ Drekagili í Dyngjufjöllum, Mosfelli í Mosfellsdal og Sigöldu sem er dæmigerður bólstrabergshryggur. Skálaga bólstraberg og bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar undir vatnsborði og einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna niður hallann og umlykjast gjóskusalla. ◊ Slíkar myndanir eru algengar undir hraunhettum stapa og apalhraunum sem renna út í vatn. ◊.
Rýólítbólstrar verða til þegar rýólítkvika kemur upp í gosum undir vatni. Slíkir bólstrar eru oft margir metrar í þvermál eins og t.d. í Bláhnúk við Landmannalaugar.