Jarðfræðiglósur GK

Útdauðinn í lok krítartímabilsins

[Cretaceous-Paleogene (K-Pg) extinction event]

Margar hugmyndir varðandi útdauðann hafa komið fram, en í dag eru aðallega tvær meginkenningar í gangi. Sú fyrri gengur út á það að risastór loftsteinn hafi rekist á jörðina (Alvarez) og valdið miklum hamförum. Þessu til stuðnings er bent á Chicxulub-gíginn sem fannst í Mexíkóflóa við norðvestanverðan Yucatánskaga. ◊. Við áreksturinn er talið að mikið rykský hafi þyrlast upp í heiðhvolfin og skyggt fyrir sólu í nokkur ár sem olli bæði kólnun og minnkandi ljóstillífun þannig að heilu fæðukeðjurnar brustu. Samfara þessum hörmungum er líklegt að flóðbylgjur hafi skollið yfir láglendið, súrt regn fallið og miklir eldar geisað. Kenningunni til stuðnings hefur verið bent á iridíumlag sem finnst víða um heim, en þetta efni er 10000 sinnum algengara í loftsteinum en í jarðskorpunni.


Einnig hefur verið bent á að kvarsagnir í iridínlaginu sýni kleyfnifleti og lagskiptingu sem kvars hefur yfirleitt ekki. Bendir þetta til þess að agnirnar hafi orðið fyrir gífurlegu höggi og þrýstingi. Slík afmynduð kvarskorn finnast í jarðlögum gíga sem vitað er að hafi myndast við árekstur loftsteins en utan þeirra, í venjulegum setlögum, eru þau afar sjaldgæf. Við áreksturinn bráðnar bergið og þeytist bráðið oft langt frá gígnum og lendir sem glerkúlur [tektite].


Eftirtektarvert er að í iridínríka laginu efst í jarðlagamyndun krítartímabilsins hafa afmynduð korn fundist á stöðum sem dreifðir eru víða um lönd. Má t.d. nefna fundarstaði í Montana, á Nýja Sjálandi, norðanverðu Kyrrahafi og í djúpsjávarseti í Evrópu. Þessi dreifing um jarðkúluna styður tilgátuna um árekstur stórs loftsteins við jörðina og að hann hafi náð að þyrla upp miklu rykskýi sem barst umhverfis hnöttinn og agnirnar síðan fallið til jarðar á stórum svæðum.


Efasemdamenn hafa þó bent á að iridínfrávikið hafi myndast við mikil eldsumbrot, en á þessum tíma var mikill hraunlagastafli á Dekanskaga að myndast (Indian Traps / Dekan Traps). ◊. Sum eldfjöll þeyta upp óvenju miklu magni af iridíni og stórgos gætu hafa þeytt því upp í gufuhvolfið. Vandamálið er hins vegar að þó svo að um sprengigos sé að ræða hefur ekki verið sýnt fram á að kvarskorn geti afmyndast við eldgos og sömuleiðis er ólíklegt að eldgos nái að þeyta gjósku það hátt upp í gufuhvolfið að hún berist vítt og breitt um jörðina. Það sem mælir á móti því að iridín sé ættað frá eldgosum er að hlutfall platínu, osmíum, ruteníum, ródíum og gulls er líkara því sem gerist í loftsteinum en kviku.


Hin kenningin er sú að halastjarna hafi rekist á jörðina, en Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur fann glerperlur í seti í Karíbahafi við mörkin krít og tertíer. Efnagreining á perlunum bendir til þess að þær hafi myndast þegar halastjarna eða loftsteinn rakst á jörðina. Við áreksturinn bráðnaði gifsset og við snöggkólnun mynduðust perlurnar og þeyttust hátt í loft upp og dreifðust um svæðið samfara miklu brennisteinsskýi (gifs + O2 → SO2). Einnig bendir Haraldur á að gígurinn í Mexíkóflóa (180 km í þvermál) sé of stór til að hafa myndast við árekstur loftsteins.


Sjá Barringergíginn í Arizona.



Sjá KT-mörkin.