Jarðskorpan

Jarðskorpan er efsti hluti berghvolfsins (lithosferunnar) og skiptist hún í meginlandsskorpu og úthafsskorpu. Neðri mörk jarðskorpunnar eru á svokölluðum Móhómörkum sem nefnd eru eftir júgóslavneskum vísindamanni, Mohorovicic, er uppgötvaði þau. Undir úthöfunum liggja Móhómörkin á um 5 til 10 km dýpi en á 20 til 40 km dýpi undir meginlöndum og ná þar jafnvel niður á 60 til 70 km dýpi undir háum görðum fellingafjalla.


Af þessu sést að úthafsskorpan er þunn en þung í sér. (3,0) Hún er að mestu gerð úr gabbrói og basalti en það sem nær yfirborði myndar bólstrabergslag. Efst liggur tiltölulega ungt set. Hvergi er úthafsskorpan eldri en 200 Má.


Meginlandsskorpan er gerð úr eðlisléttum bergtegundum (2,7) borið saman við efsta hluta möttulsins (3,4). Hún flýtur því auðveldlega á berghvolfinu og deighvolfinu sem eru þykkri undir meginlöndum en úthöfum. |T|


Meginlandsskorpan er einnig mun eldri en úthafsskorpan. Hlutar hennar eru eldri en 3000 Má ára og stór svæði eldri en 1500 Má. Bygging og efnasamsetning meginlandsskorpunnar er líka flókin borin saman við úthafsskorpuna sem er tiltölulega einföld að gerð og efnasamsetningu.


Sjá um elsta berg jarðar.