blábakteríur: (blágrænugerlar (blágræn-„þörungar“)) einfrumungar án eiginlegs kjarna.


Blábakteríur [cyanobacteria; Gr: κυανός (kyanós = blár)] eru lagarlífverur, kúlu og sívalningslaga; hafa blaðgrænu [chlorophyl] og stunda ljóstillífun. Þola margvísleg lífsskilyrði í vatni, allt frá sjóðandi hveravatni til ísilagðs vatns; þola súrefnisskort og útfjólubláa geislun; hafa hárfína bláa þræði [phycocyanin] sem gera þeim kleift að stunda ljóstillífun við afar takmörkuð birtuskilyrði.Þeir eru nú viðriðnir ýmsar setmyndanir í vatni, einkum myndun mottubergs [stromatolit] sem einnig finnast í 3 – 3,5 Gá gömlu bergi. ◊.


Blábakteríur eru með sérstakar himnur og háþróað kerfi sem þær nota til ljóstillífunar. Nafnið draga þær af bláleitu litarefni, þörungabláma sem þær nýta til að virkja sólarljósið til ljóstillífunar. Við ljóstillífunina nýta þær yirleitt vatn sem rafeindagjafa og framleiða súrefni sem aukafurð en aðrar geta nýtt brennisteinsvetni í sama tilgangi.


Sumar blábakteríur nota ekki bláleitt litarefni til ljóstillífunar heldur rautt sem kallast þörungarauði [phycoerythrin] og gefur þeim rauðan eða bleikan lit. Nokkrar tegundir Arthrospira (Spirulina) hafa þessa eiginleika og það eru þær sem gefa Natronvatni og flæmingjunum sem þar hafa búsetu rauða blæinn.


Eitt mikilvægasta framlag blábaktería til lífríkisins er framlag þeirra til þróunar plantna. Grænukornin [chloroplast] sem plöntur nýta til fæðuöflunar eru raunar blábakteríur sem lifa inni í plöntufrumu. Einhvern tíma seint á frumlífsöld eða við upphaf kambrí um tóku blábakteríur sér búsetu innan vissra heilkjörnunga [eukaryote] þar sem þær framleiddu fæðu fyrir hýsilinn, heilkjörnunginn, sem laun fyrir húsaskjólið — kallað innanfrumusamlífi [endosymbiosis]. Svipað gerðist hjá heilkjörnungum við myndun hvatbera. ◊.



Sjá blákýlinga.



Sjá bakteríur.