Síðjökultími og lok ísaldar


Umhverfissaga Íslands frá hámarki síðasta jökulskeiðs


Talið er að síðasta jökulskeið sem hófst fyrir 70.000 14C-árum BP (114.000 2 b2k) hafi náð hámarki fyrir ~ 20.000 14C-árum. (LGM) Á þeim tíma var landið hulið jökulskildi út að mörkum landgrunnsins. Ekki er auðvelt að geta sér til um hversu þykkur þessi jökull var um miðbik landsins en landmótun, hæstu eldstöðvar og reiknilíkön benda til þess að hann hafi verið amk. 2.000 m þykkur. Tindar hæstu fjalla og múlar stóðu þó uppúr sem jökulsker við norður- og austurströndina.


Á þessum tíma var mikið af vatni heimshafanna bundið í jökulís og sjávarborð því lágt. Frá meginjöklinum gengu miklir skriðjöklar út dali og núverandi firði fram til landgrunnsbrúnar eins og sjá má af jökulmenjum á núverandi sjávarbotni.


Ef marka má gögn frá Dye 3 kjarnanum 2 virðist hlýna snögglega undir lok hámarks síðasta jökulskeiðsins ◊. (LGM) en þessarar hlýnunar sér ekki stað hér né kuldakastsins sem á eftir fylgdi — Elsta Dryas.4 Eftir það tók við hægfara og skrykkjótt hlýnum uns hlýstig Bølling/Allerød gekk í garð fyrir 13.000 BP (eða 14.692 ± 186 b2k) en þá hlýnaði mjög snögglega um ~ 5,8°C.


Ísaldarjökullinn virðist fyrst hafa byrjað að hörfa úti fyrir Norðurlandi fyrir 15.500 - 13.500 árum BP og fyrir 13.000 árum BP við Vesturland en þá hófst mikil þýða og jöklarnir hopuðu hratt. Mikið vatn rann til sjávar frá bráðnandi jöklum N-Ameríku og Skandinavíu og sjávarborð hækkaði hratt og hér færðust fjörumörk langt inn í land sem þá var bælt undan fargi jökulsins. Afstæð sjávarstaða var hæst í um 150 m yfir núverandi sjávarmáli á Vesturlandi fyrir 12.600 árum BP. Þegar sjór flæddi inn undir jökulinn lyftust jökulsporðarnir, brotnuðu og flutu burt sem borgarísjakar og hefur þetta líklega átt stóran þátt í hraðri rýrnun jöklanna.


Sjá Fossvogslögin.


Fyrir um 12.000 BP árum voru jöklar innan núverandi strandar umhverfis landið. Minnkandi jökulfarg leiddi til þess að landið reis hratt. Frá byrjun Bølling/Allerød hafði loftslag smám saman farið kólnandi og svo virðist sem jöklar hafi gengið fram á ný fyrir 11.000 árum BP og náð hámarki á kaldskeiðinu Yngra-Dryas (10.885 - 10.000 BP). Landið seig undan jökulfarginu og áflæðið náði hámarki á um 10.300 árum BP. Á þeim tíma virðast jöklar hafa náð fram til þáverandi strandar umhverfis landið.


Eftir lok Yngra-Dryas hlýnaði á nýjan leik nema hvað skammvinnt kuldakast með framrás jökla varð fyrir 9.800 árum BP. Eftir það leysti jökla hratt og áflæði fylgdi í kjölfarið. Lábarið grjót í fornum fjörukömbun ◊. og malarhjallar eru til vitnis um fjörumörk frá þessum tíma.


Þó svo að landiðværi mjög bælt undan fargi jökulsins reis það hratt með hröðu afflæði. Það sést best á því að Þjórsárhraun rann á auðu landi fyrir 8600 árum BP og til strandar þar sem sjávarmál var mun lægra en nú. Þegar hlýjast var á Íslandi, rétt fyrir miðbik Nútíma, voru jöklar mun minni en í dag og sumir hveljöklar landsins (Langjökull, Hofsjökull) voru smáir eða jafnvel horfnir. Þá voru birkiskógar útbreiddir á láglandi, og skógarmörk lágu 200 - 400 m hærra en nú. Um og eftir miðbik Nútíma fór að kólna, jöklar uxu og náðu hámarksútbreiðslu í lok Litlu-ísaldar, í lok 19. aldar.


Síðustu kulda- og hlýskeið ísaldar: |T|


Breytingar á sjávarstöðu






Heimildir:    1 Hreggviður Norðdahl, Ólafur Ingólfsson, Halldór G. Pétursson og Margrét Hallsdóttir 2008: „Late Weichselian and Holocene environmental history of Iceland“ JÖKULL, No. 58, 2008.
2 Árný E. Sveinbjörnsdóttir & Sigfús J. Johnsen 1994: „Nýr ískjarni frá Grænlandsjökli“ Náttúrufræðingurinn 64 (2), bls. 83-96, 1994.
3 Dansgaard, W., J.W.C. White & S. Johnsen 1989: „The abrupt termination of the Yunger Dryas Climate event“, Nature Vol 339, 15. June.
4 Siegenthaler, U. , U. Eicher H. Oeschger & W. Dansgaard 1984: „LAKE SEDIMENTS AS CONTINENTAL 6180 RECORDS FROM THE GLACIAL/POST-GLACIAL TRANSITION“ Annals of Glaciology 5 1984, © International Glaciological Society.