Kvarðaður geislakolsaldur

Þegar geislakolsaldur er notaður til að lýsa aldri fornleifa td. frá síðustu 10.000 árum reynist nauðsynlegt að staðla eða kvarða mæliniðurstöðurnar og breyta 14C-árum í kvörðuð ár - „almanaksár“ [calibrated radiocarbon age]. Þetta er mikilvægt ef bera á geislakolsaldur saman við aldur sem byggður er á skráðum sagnfræðilegum heimildum.


Geislakolsaldur sem fæst við mælingar á rannsóknarstofum er gefinn á hefðbundinn hátt [conventional radiocarbon age] sem 14C-ár BP en slík ár eru mismunandi að lengd vegna breytilegs styrks 14C í andrúmsloftinu á þeim tíma sem mælingin nær til. Styrkurinn er háður geimgeislun en hún er háð breytingum á segulhvolfinu Auk þess er verulegt magn kolefnis í sjávarseti og geta sveiflur í loftslagi ráðið miklu um jafnvægi þess við andrúmsloftið og þar með styrk 14C. Einnig þarf að leiðrétta 14C-aldur vegna áhrifa þekktra umhverfisþátta.


Til að hægt sé að bera hefðbundinn geislakolsaldur saman við sagnfræðilega þekktan aldur eða niðurstöður úr mælingum á eldri eða yngri myndunum þarf að fella þær að línulegum mælikvarða með því að kvarða þær og gera sambærilegar almanaksárum. Þetta á líka við um sýni frá mismunandi svæðum á jarðkúlunni. Þetta er td. gert með kvörðunarferlum sem byggja á árhringjum, þekktum öskulögum, og árlegum lagskiptum í kalsítútfellingum kalkhella eða í kórölum.


Hefðbundinn „hrár“ 14C aldur er gefinn upp í árum BP (þe. fjöldi ára fyrir 1950 AD) en kvarðaður aldur í b2ká (þe. fjöldi ára fyrir 2000 AD).