Landslag við strendur

Sjávarbylgjur og straumar, sem þær koma af stað, eru afkastamestu sjávaröflin við rof og mótun landslags við strendur. Bergmylsna, sem fellur til úr framburði fljóta eða við niðurrif brimöldunnar, berst með fram ströndinni og sest til í vari, einkum inni í víkum og vogum. Í brimgarðinum velkist bergmylsnan til og frá í iðustreymi öldunnar þannig að kornin smækka og fá lábarið útlit. Fínustu kornin berast með straumum langt frá ströndinni og bætast við set landgrunnsins.


Rof haföldunnar fer einkum fram í fjörunni og eru þær mjög breytilegar eftir því hvort ströndin er sendin og lítið sem ekkert vogskorin eða þverhnípt með björgum sem ganga í sjó fram eins og víða á annesjum.


Sand- og malarfjörur eru mjög misbreiðar og ná frá sjávarkambi (fjörukambi) og út að lágfjörumörkum. Þar sem sandburður er mikill, eins og við suðurströndina, myndast oft rif úti fyrir ströndinni sem brimið brýtur á og kemur það stundum upp úr sjó á stórstraumsfjöru. Sunnanlands kallast sjórinn innan við rifið lega og er hann oft tiltölulega lygn þótt brimi úti fyrir. Í brimi hleðst sjór upp í legunni (álnum) og grefur hann rennur sem kallast hlið út í gegnum sandrifið.


Útsogsstraumar um slík hlið við baðstrendur erlendis geta verið mjög varasamir.


Sjávarkambur, sem einnig er nefndur malarkambur, myndast einkum í stórbrimi þegar aldan brotnar með boðaföllum og kastar möl og grjóti upp í fjöruna og jafnvel hátt á land. Útsogið, sem ekki er eins kraftmikið, tekur fínasta setið með sér aftur og skolar því út frá ströndinni þar sem það hleðst upp í rif eða jafnvel enn lengra þangað sem bylgjuhreyfingar hættir að gæta. Þar sest það fyrir og myndar marbakka úr skálaga seti. Eftir því sem brimar meira og útsogið verður kraftmeira verður sand- og malarfjara grófari og um leið brattari. Inni í lygnum fjörðum myndar árset oft stórar leirur sem koma upp úr á háfjöru og kallast útfiri.


Venjulega brotnar brimaldan skáhallt við strendur eins og t.d. við suðurströndina þar sem suðaustanátt er algengust. Þá flyst sandur og möl í krákustígum undan vindátt og sjó vestur með ströndinni. Sandburður jökulfljótanna við suðurströndina er gífurlegur og nægir hann til þess að viðhalda ströndinni þannig að strandlínan færist ekki innar. Þannig hafa Kötluhlaup t.d. borið fram svo mikinn sand að ströndin vestan til á Mýrdalssandi hefur færst út á sögulegum tíma meira en dæmi eru til annars staðar á landinu.


Sérhver rúmmetri vatns vegur 1 tonn og því er rofmáttur haföldu sem skellur á strönd gífurlegur. Ætla má að 3 m há brimalda sem brotnar á vegg myndi þrýsting sem svarar til a.m.k. 700 kg/m2. Sjórinn þrýstir sér inn í hverja glufu sem smám saman víkkar vegna efnaveðrunar og auðveldar þannig niðurrif brimsins. Mylsnan úr berginu velkist til og frá í brimrótinu um leið og hún sverfur undirlagið enn frekar.


Á sæbröttum ströndum grefur brim sig inn í ströndina þannig að þverhnípt stál myndast og kallast það brimklif. Þar sem atgangur sjávarins er mestur skolar hann öllu hruni úr brimklifinu burt og grefur jafnframt skúta inn undir þverhnípt bergið og kallast það þá bjarg eða sjávarhamrar. Neðan brimklifsins ólmast brimið á brimþrepinu og mylur þar niður brotin úr berginu. Smæstu agnirnar skolast jafnóðum út og mynda marbakka eða skolast inn í næstu vík þar sem sandfjara hleðst upp. Brimþrepið er misbreitt eftir aðstæðum. Víða myndar það aðeins smá fjörurönd og sums staðar vantar það alveg, einkum þar sem straumröst er þung við bjargið. Brimklifið ásamt brimþrepinu og marbakkanum kallast einu nafni brimstallur. Látrabjarg, Hælavíkurbjarg og Hornbjarg, sem hæst nær 534 m hæð, eru stærstu brimklif hér á landi.


Þegar hafaldan kennir grunns við ey sveigir hún að eynni báðum megin. Sé sandburður fram með eynni hleðst hann upp í rif eða granda þar sem öldurnar skella saman varmegin við eyna. Þannig rif, Engeyjarrif, liggur t.d. suður frá Engey. Liggi eyjarnar á grunnu vatni og stutt undan landi nær rifið jafnvel til lands og myndar granda. Slíkir grandar sjást á stórstraumsfjöru landmegin við Geldinganes og Grandahólma. Þar sem eyjar liggja stutt undan landi og sandburður er nægur verður grandinn að eiði eins og Þrælaeiði sem tengir Heimaklett við Stóraklif og Heimaey. Mikill sandburður og sjávargangur tengir eyjar oft við strendur með rifi. Dæmi um það er Dyrhólaey, Ingólfshöfði, Skinneyjarhöfði og Stokksnes við suðurströndina og Þórðarhöfði í Skagafirði. Á líkan hátt lokast grunnir firðir og víkur og verða að lónum þegar brimalda og straumur með sandburði hlaða upp malarrifi í mynni þeirra. Góð dæmi um slík lón og malarrif eru Lónsfjörður og Hornafjörður. Tjörnin í Reykjavík er einnig lón og standa húsin milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu á 14 m þykku malarrifi. Mörg kauptún og kaupstaðir við firði standa á eyrum sem eru mynduð á sama hátt og malarrifin. Má þar nefna Ísafjörð, Siglufjörð og Oddeyri á Akureyri.



Sjá INDEXL → landmótun → hafið.