Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands, 14 km að lengd og 441 metra hátt. Bjarginu er í daglegu tali skipt í fjóra hluta, sem heita Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg en þar er vestasti oddi Íslands, Bjargtangar.


Látrabjarg er byggt upp af hinum forna hraunlagastafla Vestfjarða, en þessi hluti hans hlóðst upp í endurteknum eldgosum fyrir um 12-14 milljónum ára. Á milli hraunlaganna liggja auðrofin millilög og þess vegna myndast góðar syllur fyrir fuglavarp í bjarginu enda er þar stærsta fuglabyggð við Norður-Atlantshaf og hefur bjargið verið nytjað frá landnámstíð.


Mikill sjávarfallastraumur liggur meðfram Látrabjargi og nefnist það Látraröst þar sem straumurinn fer fyrir Bjargtanga. Fengsæl fiskimið eru sitt hvorum megin við og langt út af Látraröstinni svo þangað hafa sjómenn löngum sótt auk þess sem fjölfarnar sjóleiðir liggja þar um.


Sterkur straumurinn myndar iðuköst og brotsjói langt út frá landi og forðast sjófarendur að lenda í þeim.