Millilög úr seti er víða að finna í blágrýtismynduninni og þó að þau séu aðeins lítill hluti berglagastaflans eru þau víða áberandi og af þeim má geta sér til um ríkjandi loftslag þegar þau voru að myndast.


Algengust eru silt- og sandsteinslög sem líklega eru jarðvegur að uppruna. Liturinn stafar af efnaveðrun járnsambanda í röku loftslagi. Víða sjást ljósar rendur úr líparítgjósku í setinu sem myndast hafa við öskugos úr megineldstöðvum. Millilögin milli hraunlaganna eru mjög misþykk og bendir það til þess að hlé milli gosa hafi verið mislöng. Setlög úr ár- og vatnaseti úr lagskiptum sandsteini og völubergi eru miklu sjaldgæfari en ætla mætti sé miðað við núverandi rofmátt vatnsfalla. Bendir þetta til þess að hraunlög á yfirborði hafi flest verið afar gropin og lindár með stöðugt rennsli hafi því verið algengustu árnar. Jökulruðningur sést hvergi og þó svo að snjó hafi fest á efstu fjallstinda hafa leysingar verið fátíðar. Móberg er fáséð og virðist helst hafa myndast þar sem hraun hafa runnið í stöðuvötn t.d. í öskjum. Þykkar samfelldar setlagamyndanir með surtarbrandi finnast nokkuð víða.