Öskjur

Öskjur verða oft til á seinni stigum megineldstöðva. Þá er algengt að mikil sprengigos verði í þeim. Þau eru þá oft af því tagi gosa er mynda eldský ásamt gjóskuhlaupum sem æða niður fjallshlíðarnar eins og gerðist í gosi í eldfjallinu Montagne Pelée á eyjunni Martinique í Vestur-Indíum. Þessi gos mynda oft flikruberg. Slík gos sem þessi leiða yfirleitt til myndunar sigketils í hvirfli megineldstöðvanna þegar þrýstingur kvikunnar í þrónni minnkar og þak hennar eða kvikuhólfsins brestur og fellur niður. Við þetta myndast sigkatlar á yfirborði og kallast þeir öskjur eftir Öskju í Dyngjufjöllum. Á fræðimáli kallast öskjur caldera eftir sigkatlinum í eldfjallinu Pico de Teyde á eyjunni Tenerife. Einnig eru til svokallaðar basaltöskjur (basaltcaldera). Þær myndast við áköf basísk flæðigos sem minnka þrýstinginn í kvikugeyminum svo mjög að þakið sígur um hringlaga misgengi yfir honum.


Í virkum íslenskum megineldstöðvum eru margar og stórar öskjur og sú þekktasta hérlendis er aðalaskja Dyngjufjalla. Langstærsta íslenska askjan er á Torfajökulssvæðinu um 150 km2 að stærð og næst í röðinni er líklega askja Kötlu í Mýrdalsjökli, um 80 km2, á askja Bárðarbungu 70 km2 og askja Kröflu 60 km2. Einnig eru miklar öskjur undir jökulbreiðu Vatnajökuls í Grímsvötnum, Kverkfjöllum og Esjufjöllum. Ennfremur eru öskjur undir Tungnafellsjökli og Hofsjökli og í hvirfli Öræfajökuls er 14 km2 askja.



Sjá öskjur undir jökli.