Algengustu flokkar steinda

Tiltölulega fáar steindir, varla fleiri en 20 tegundir, eru svo algengar að þær mynda mestan hluta jarðskorpunnar eða 95%. Þessar steindir eru kallaðar bergmyndunarsteindir því að eina eða fleiri þeirra er að finna í öllum helsu bergtegundum jarðar.


Meginlöndin eru að miklu leyti mynduð úr setbergi en langstærstur hluti bergs hér á landi er myndaður við storknun kviku og kallast því storkuberg. Þegar bráðin kvika kólnar byrja steindir að falla út hver af annarri allt eftir aðstæðum og efnasamsetningu kvikunnar. Þessar steindir kallast frumsteindir.


Heitt vatn, sem seinna flæðir um storkubergið, getur síðan leyst frumsteindirnar upp. Jónirnar berast á brott með vatninu og falla síðan út annars staðar og mynda þar nýjar steindir sem kallast holufyllingar eða síðsteindir.


Öllum íslenskum steindum er hér skipt í þessa tvo meginflokka, frumsteindir og holufyllingar, vegna þess hve vel það hentar aðstæðum hér á landi og einfaldar málin.