Sjávarlífverur krítartímabilsins

Með tilkomu nýrra tegunda einfrumu lífvera hafði sjávarsvifið fengið nútímalegt útlit í lok krítartímabilsins. Grundvallarbreytingin á plöntusvifinu var þróun og mikil fjölgun kísilþörunga — það voru einstakar frumur sem lifðu í kísilskel sem líktist helst lítilli öskju. Kísilþörungar [Diatoms] hafa e.t.v. verið komnir fram á júratímabilinu en þeir juku ekki útbreiðslu sína að marki fyrr en á mið-krít. Kísilþörungarnir hafa ásamt skoruþörungum [Dinoflagellata] og smásæjum kalkþörungum [Nannoplankton], í heitu höfunum, staðið fyrir mestallri ljóstillífun svifsins í höfum krítartímabilsins. Hafa ber í huga að stærstur hluti þeirrar botneðju sem sest til á djúpsjávarbotni nú er kominn frá kísilþörungum og að myndun þessa sets hafði þegar hafist fyrir lok krítartímabilsins.


Ofar í fæðupýramídanum jókst fjölbreytni nútímalegra götunga mjög í fyrsta skipti. Þessir götungar sem kallaðir eru Globigerina á fræðimáli koma fyrir sem steingervingar í setlögum frá júratímabilinu en verða fyrst nægilega algengir á árkrít svo að hægt sé að nota þá við ákvörðun á afstæðum aldri jarðlaga.


Sú þróun sem átti sér stað hjá einfruma svifi á síðkrít gerbreytti setmyndun uppsjávarlífvera. Á miðkrít hefst mikil myndun kalksets á hafsbotni úr leifum Globigerina-götunga og smásærra kalk-svifþörunga (nannoplankton). Smásæju kalk-svifþörungarnir blómguðust svo mjög í heitum höfum á síðkrít að þykk krítarlög náðu að myndast þegar smásæjar kalkplötur [kokkólítar] úr brynju frumunnar féllu til botns og söfnuðust fyrir og mynduðu botneðju sem síðar varð að fíngerðum kalksteini, krít. Krítarsteinn krítartímabilsins gengur einnig undir nafninu skrifkrít og er notaður sem töflukrít í skólum. Frægustu krítarlögin koma í ljós meðfram suðurströnd Englands. Ástæðan fyrir þessari miklu kalkmyndun er óviss en hún hefur ekki gerst aftur, hvorki fyrr né síðar. ◊.


Enn hærra í fæðupýramídanum héldu ammónítar og belemnítar stöðu sinni sem mikilvæg synd rándýr. Ammónítarnir gegna mikilvægu hlutverki sem einkennissteingervingar krítartímabilsins líkt og þeir gera einnig á trías og júra. Á meðal ammoníta krítartímabilsins voru margar tegundir með beina keilulaga skel og aðrar með furðulega snúnar skeljar.


Á krítartímabilinu komu hinir eiginlegu beinfiskar [teleost] fram en til þessa undirflokks teljast flestar núlifandi ættkvíslir sjávar og ferskvatnsfiska, um 19 þúsund tegundir. Einkenni þessara fiska eru geislauggar, vel þróaðir kjálkar, symmetrískur sporður, kringlótt hreistur og stoðgrind sem eingöngu er úr beini. Á síðkrít voru þegar komnar fram fjölmargar tegundir og þar á meðal stærsta tegundin sem fundist hefur steingerð og kallast Xiphactinus, um 5 m langur.


Líklega voru sundeðlur [Mososaur] ægilegustu dýr krítarhafanna enda gátu sumar orðið allt að 15 m á lengd. Þó svo að vissa sé fyrir því að sundeðlur hafi étið ammoníta voru ófullkomnar skriðdýratennur þeirra illa fallnar til þess að bryðja skeljar og líklega voru ammónítar óverulegur hluti fæðu þeirra.


Önnur dýr sem þróuðust á krítartímabilinu og skiptu minna máli í lífríki sjávar voru ófleygi fuglinn Hesperornis og sjávarskjaldbökur. Stórir fætur og litlir vængir fuglsins voru þróaðir til sunds og tennur hans hölluðust aftur og hentuðu því vel til að grípa og ná taki á hálum fiskum. Af skjaldbökum má nefna Archelon sem gat orðið næstum 4 m löng.


Á krítartímabilinu byrjaði lífríkið á sjávarbotninum að taka á sig nútímalegt útlit. Mest bar á því að armfætlum fækkaði en í upphafi miðlífsaldar höfðu þær aðeins sótt í sig veðrið eftir afhroðið sem þær hlutu í útdauðanum í lok fornlífsaldar. Aðrir tegundahópar sem höfðu notið góðs gengis á júratímanum héldu sínum hlut á krítartímanum. Á meðal þeirra voru ígulker og hexakórallar sem juku heldur á fjölbreytni sína án þess að þau tækju umtalsverðum breytingum til aðlögunar. Hjá öðrum tegundahópum þróuðust áfram bæði sömu ættir og komið höfðu fram á júra og aðrar nýjar sem haldið hafa velli fram á okkar daga. Stór hluti allra götunga (Foraminifera) sem nú lifir kom t.d. fram á krítartímabilinu.


Algengustu nútíma mosadýrin [Bryozoa] sem nú lifa [Cheilostomata] og mynda t.d. slí á skipsbotnum komu fram á júratímanum en náðu sér fyrst á strik á síðkrít þegar um 100 ættkvíslir þeirra komu fram.


Margar tegundir samloka lifðu einnig á botni krítarhafanna. Meðal þeirra voru kuðungslaga ostrur. Mikilvægar voru einnig rudist-samlokur sem komið höfðu fram á júratímanum og þróuðu gríðarlega stórar tegundir sem höguðu sér líkt og kórallar og mynduðu rif í hitabeltishöfunum. Á mið-krít mynduðu rudist-samlokur flest rifjanna. Rudist-ssmlokurnar voru með keilulaga neðri skel líkt og trekt en efri skelin myndaði lok yfir keilubotninn að ofan. Þessi furðulegu dýr festu sig við harða hluti og þá oft aðrar skeljar og uxu síðan upp á við allt að 1 m. Líklega hafa rudist-samlokurnar vaxið ört á svifi og þörungi sem lifði í samlífi við dýrið en hann stundar ljóstillífun og hjálpar um leið við kalsítmyndunina. Það var svo ekki fyrr en eftir lok krítartímabilsins þegar rudist-samlokurnar voru orðnar aldauða að kórallar urðu aftur ríkjandi.