Dýralíf í höfunum

Sumir tegundahópar náðu sér aldrei á strik eftir útdauðann á síðdevon og töflukórallar og svampar voru lítt áberandi í lífríkinu. Ammónítarnir juku þó fjölbreytni sína og skipuðu aftur veigamikið hlutverk en steingervingar þeirra eru einmitt mjög mikilvægir einkennissteingervingar við aldursgreiningu berglaga frá síðari hluta fornlífsaldar. ◊. Einnig héldu hákarlar og geislauggar stöðu sinni sem rándýr en brynháfarnir sem drottnað höfðu í höfunum á devon hurfu hins vegar við upphaf kolatímabilsins. Hvarf brynfiska og líkra fiska í upphafi kolatímabilsins er dæmigert fyrir þá breytingu sem er einkennandi fyrir lífríki sjávar á þessum tíma þegar brynjuðum og silalegum dýrum fækkar en hreyfanlegri dýr koma fram.


Svo er að sjá sem sundfimi verði æ nauðsynlegri eftir því sem á fornlífsöldina leið, e.t.v. vegna nýrra tegunda stórra ránfiska . Og eftir devon urðu brynjaðir fiskar aldrei áberandi í sjávardýrafánunni og nátílum með þungar skeljar fækkaði einnig. Andstætt þessum klunnalegu dýrum tímguðust sundfimir fiskar eins og hákarlar og geislauggar og ennfremur ammónítar.


Fátt er vitað um svifið sem rak um höfin innan um fiska og ammoníta á fornlífsöld því að lítið er um steingert plöntusvif meðal steingervinga frá þessu tímabili. Þó hljóta margir tegundahópar að hafa dafnað vel án þess að skilja eftir sig greinanlega steingervinga. Af steingervingum sést að Acritarcha hélt velli en náði sér ekki á strik eftir það áfall sem þessar lífverur urðu fyrir í lok devon.


Í kjölfar hnignunar töflukórala og svampa í lok devon og vegna þess hve dýr sem byggðu upp mikið stoðkerfi máttu sín lítils uxu rif úr lífrænum leifum sjávardýra hægt út fornlífsöldina. Kórallar af þeim gerðum sem nú hlaða upp rif þróuðust ekki að marki fyrr en á trías og í millitíðinni hlóðust aðeins upp lítilfjörleg og óveruleg rif. Þau dýr sem það gerðu voru einkum svampar, mosadýr og kalkþörungar.


Armfætlur sóttu aftur í sig veðrið eftir útdauðann á síðdevon og skipuðu mikilvægan sess í lífríkinu. Broddóttar armfætlur sem þekktar eru undir ættkvíslarheitinu Productid áttu velgengni að fagna. Þær notuðu broddana sem festu við botninn. Eins og armfætlurnar tímguðust samlokur vel á og í botnsetinu á síðfornlífsöldinni og sama gilti einnig um snigla.


Sæliljur sem eru gruggætur fastar við sjávarbotn náðu hvað mestri fjölbreytni og útbreiðslu snemma á kolatímabilinu og mynduðu þær samfelldar breiður víða á hafsbotninum. Þessar lífverur skildu mikið magn karbónatleifa eftir sig og er það víða að finna í kalksteinslögum frá fyrri hluta kolatímabilsins.


Fenestella-mosadýrin mynduðu blaðlaga grind líka blævæng sem stóð á hafsbotninum og lifðu þau á gruggi sem til þeirra barst með straumum. Það voru því ekki aðeins stoðgrindur þessara dýra sem urðu hluti af kalksetinu heldur einnig gruggagnir sem í þeim festust. Í upphafi kolatímabilsins óx víða ógrynni af mosadýrum sem söfnuðu til sín seti og mynduðu þannig hóla og hæðir á sjávarbotninum. Þessir hólar gátu orðið nokkuð háir en svo djúpt var niður á þá að ölduróts gætti þar ekki. Í hlíðum þeirra uxu einnig sæliljur í stórum breiðum.


Á síðari hluta kolatímabilsins gegndu kalkþörungar miklu hlutverki við að draga til sín grugg og mynda þannig hóla úr karbónatsetlögum. Þessir kalkþörungar líktust helst maísflögum sem loða saman á brúnunum.


Fusulinid sem er tegundahópur stórra botnlægra [benthic] götunga átti sér aðeins fáa fulltrúa við upphaf kolatímabilsins en þeir gengu í gegnum öra þróun á seinni hluta kolatímabilsins og á perm. Um 5000 tegundir hafa fundist í berglögum sem eingöngu teljast til permtímabilsins. Þó svo að þessar lífverur væru einfruma dýr lík amöbum með skel voru sumar tegundirnar allt að 10 cm á lengd. Vegna mikillar útbreiðslu og hraðrar þróunar tegunda eru fusulinid ákjósanlegir einkennissteingervingar á síðari hluta kolatímabilsins.