Flekaskilin — miðhafshryggirnir

Jarðskorpan gliðnar um rekhryggina en hraunbráð vellur upp á milli jaðranna og segulmagnast „rétt“ eða „öfugt“ í ríkjandi segulsviði. ◊.


Rannsóknir benda til þess að heitir reitir séu mjög staðbundnir og geti verið virkir tugi Má. Heitu reitirnir eru oft á rekhryggjunum eins og Ísland, eða í nágrenni þeirra, en þá er einnig að finna víðar t.d. er einn undir Hawaii-eyjum þ.e.a.s. undir miðjum Kyrrahafsflekanum.


Líklegt er að flekaskilin geti rekið yfir kyrrstæða möttulstrókana. Berist rekbelti miðhafshryggjanna verulega út af möttulstrók fer venjulega svo að hluti þess, næst stróknum, deyr út, en nýtt gos- og rekbelti myndast yfir honum. Þetta getur skýrt hvernig rekbelti Íslands virðast hafa brotnað upp og færst til eftir því sem tíminn leið. ◊.


Vegna mikillar eldvirkni heitu reitanna myndast slóði gosefna út frá rekhryggjunum þannig að þverhryggur myndast. Slíkir þverhryggir heita dauðir hryggir. Þessir dauðu skjálftalausu hryggir gefa hreyfingu jarðskorpuflekanna til kynna miðað við heitu reitina. Af þessu tagi er hryggurinn milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlandseyja. Hann tók að myndast þegar möttulstrókurinn varð virkur fyrir um 60 - 70 Má og Grænland klofnaði frá Bretlandseyjum er Atlantshafsbotninn byrjaði að myndast.


Flekaskilin myndast í fyrstu vegna togkrafta í jarðskorpunni. Sjá mynd ◊. Við það myndast sigdalur með siggengjum beggja vegna og flekana byrjar að reka hvorn frá öðrum. Reyndar er Rauðahafið; í slíkum nýmynduðum sigdal og það er svo ungt að enn sem komið er liggur virkur rekhryggurinn að hluta undir setlögum. Sjá mynd: ◊.


Í fyrstu er talið að sigdalur Rauðahafsins hafi litið út líkt og sigdalurinn í Austur-Afríku. Fyrst braust mikið basískt gosberg upp yfirborðið og er hraunlagastaflinn talinn hafa myndað hásléttu sem náði 2,5 km hæð y.s. Við togið rifnaði skorpan þannig að mikill hæðarmunur varð á botni sigdalsins og sléttunni. Áður en sjór flæddi inn í dalinn barst set út á dalbotninn frá nálægum hlíðum sigdalsins. Þetta er molabergsset sem nú er alsett basaltgöngum og sillum sem mynduðust þegar kvikan tróð sér upp um siggengissprungurnar. Eftir því sem rekið ágerðist og dalurinn víkkaði seig botninn og sjór flæddi inn. Í fyrstu var nánast um lón og vötn að ræða fremur en haf. Uppgufunin var mikil og uppgufunarset eins og salt myndaðist ofan á landræna molabergssetinu. Að lokum og eftir því sem rekið hélt áfram dýpkaði hafið og sjávarset myndaðist. Þannig eru aðstæður í Rauðahafinu nú. ◊. ◊. Haldi rekið áfram mun Rauðahafið breikka líkt og Atlantshafið gerði.