Stærð jarðskjálfta er oftast mæld með svonefndum Richterkvarða. Sá kvarði er kenndur við skjálftafræðinginn Charles F. Richter en hann bjó sér til þennan kvarða til að bera saman skjálfta í heimalandi sínu, Kaliforníu. Hann valdi staðlaðan skjálftamæli og mældi útslag skjálftans í 100 km fjarlægð frá upptökum. Richter gaf skjálfta með útslagið 1 mm stærðina 3 og skjálfta úr sömu fjarlægð en með 10 mm útslag gaf hann stærðina 4. Skjálfti með 100 mm útslag fékk 5 og svo koll af kolli. Þannig vex skjálftinn um 1 stærðarstig á kvarða Richters, í hvert sinn sem útslagið tífaldast.


Sé skjálftinn ekki í 100 km fjarlægð verður að leiðrétta útslagið sem fjarlægðinni nemur. Richter-kvarðinn hefur sem slíkur ekkert hámark en reynslan hefur sýnt að stærstu skjálftar ná rúmlega 8 stigum á Richter-kvarða. Útslag þeirra er þá 100 til 1000 milljón sinnum stærra en útslag  skjálfta með stærðina 0.


Stærð skjálfta á Richterkvarða (táknuð með ML = magnituda(local)) er skilgreind sem log10 af mældu útslagi þar sem tekið er tillit til fjarlægðar. Þessu má lýsa með eftirfarandi líkingu:


ML = log A + B

ML, magnituda, stendur fyrir skjálftastærð, A stendur fyrir útslag skjálftans í míkrómetrum (1 µm = 10−6 m) en B er stærð byggð á reynslu og því sérstök fyrir sérhvern mælistað. Hún er til leiðréttingar vegna fjarlægðar frá skjálftaupptökum þannig að skjálfti mælist með sömu stærð óháð fjarlægð frá upptökum.


Sjá mynd til skýringa: ◊.



Sjá nánar um stærð skjálfta.



Sjá síðu með krækjum í stærstu jarðskjálfta frá 1900.




Sjá INDEX /=> |J| → jarðskjálftar.