Skemmdir af völdum jarðskjálfta
Skemmdir af völdum jarðskjálfta má greina niður í 6 flokka eftir eðli þeirra. Til fyrstu tveggja flokkanna teljast skemmdir vegna beinna áhrifa skjálftans en til hinna teljast tjón vegna óbeinna afleiðinga.
- Hreyfing yfirborðs jarðar af völdum jarðskjálftabylgna, einkum yfirborðsbylgna, getur skemmt eða eyðilagt mannvirki.
- Þar sem misgengi opnast undir mannvirkjum slitna þau þ.e. mannvirkin í sundur og rifna.
- Gas- og raflagnir rofna iðulega í jarðskjálftum með þeim afleiðingum að eldur verður laus í byggingum. Í jarðskjálftunum í San Francisco 1906 og Tokyo og Yokohama 1923 urðu 90% skemmdanna af völdum elda sem kviknuðu í kjölfar skjálftanna.
- Skriður geta fallið vegna titrings jarðlaga og fært mannvirki í kaf. Þetta er einkum áberandi í fjalllendi eins og í Alaska, Kína, Íran og Tyrklandi.
- Þegar titringur kemur á gegnblaut setlög hættir þeim til að losna upp og verða sem kviksandur. Við slíkar aðstæður geta heilu mannvirkin hreinlega sokkið í jarðlögin. Mikið tjón varð af þessum völdum í Alaska 1964 og einnig hefur þetta gerst í Japan.
- Þegar jarðskjálftar verða á hafsbotni koma þeir af stað flóðbylgjum sem oft eru nefndar tsunami eftir heiti þeirra á japönsku. Eftir að jarðskjálfti varð hjá Unimak eyju við strönd Alaska 1946 náði slík bylgja ströndum Hawaii 4½ klukkustundum síðar. Hraði bylgjunnar var um 800 km/klst. Þó að ölduhæð bylgjunnar væri aðeins um 1 m á opnu hafi hækkaði sjávarmál 18 metrum meir en við stórstraumsflóð er hún skall á ströndinni. Þessi bylgja eyðilagði fjölda húsa og varð 159 manns að bana. Flóðbylgjan frá skjálftanum í Alaska 1964 skall á bænum Crescent City í Kaliforníu, skammt sunnan landamæra Oregonfylkis, og drekkti 119 manns. Bylgjan skall á bænum 4 ½ klst. eftir að hún myndaðist í Alaska. Mannskæðari var þó flóðbylgjan sem skall á ströndinni í Sanriku-héraði á norðaustanverðri Honsu-eyju í Japan árið 1886 eftir að jarðskjálfti varð úti fyrir ströndinni. Hún drekkti 26.000 manns.
Sjá INDEX /=> |J| → jarðskjálftar.