Himinbláminn

Sýnilegt ljós sólarinnar er aðeins lítill hluti rafsegulrófsins og er hvítt því að það inniheldur alla liti litrófsins. Þegar það brotnar á leið sinni í gegnum regndropa regnbogans eða þrístrending glers greinist það upp í litróf með stækkandi bylgjulengd frá bláu ljósi upp í rautt.


Ljóseindir sólarljóssins sem falla á sameindir í lofthjúpi Jarðar og dreifast frá þeim í allar áttir með sömu bylgjulengd vegna víxlverkunar við rafeindaský sameindanna. Þetta fyrirbæri nefnist Rayleigh-ljósdreifing. Hún gerist í ljósi þar sem sameindir eru smærri en bylgjulengd ljóssins og er verulega háð bylgjulengdinni og er þess vegna rúmlega 9 sinnum virkari í bláa enda sýnilega litrófsins en þeim rauða (700 nm v. 400 nm). Þessi ljósdreifing veldur því meira af bláu ljósi berst augum okkar þegar við lítum upp í heiðan himinn sem okkur virðist blár. Auk þess skautar hún ljósið á vissu svæði himinhvolfsins. Máninn hefur engan lofthjúp og þar sýnist himininn vera svartur.


Sjá um skautun ljóss í himinblámanum.


Við sólarupprás og sólarlag fer ljósið enn lengri leið frá sólinni gegnum lofthjúpinn en það gerir um hádegi vegna þess hve skáhallt það fellur. Ljósið tapar því enn meiru af bláu en venjulega og verður því enn rauðara. Skýringin á morgunroða og kvöldroða er því hin sama og á himinblámanum.


Við endurkast sýnast okkur þeir hlutir hvítir sem endurkasta ollu ljósi og þeir hlutir svartir sem endurkasta engu ljósi.


Vatnsdropar eða ískristallar skýjanna eru það stórir að þeir endurkasta öllum litum litrófsins jafnt og þess vegna sýnast okkur flest ský hvít. Dökk ský bera mikið magn vatnsdropa og hafa því drukkið mikið af sólarljósinu í sig.


Vatn í stöðuvötnum og hafinu sýnist yfirleitt fölblátt vegna þess að það gleypir örlítið af rauða hluta sýnilega ljóssins í sig sem vantar þá þegar ljósið endurkastast en blái liturinn skilar sér. Hafflöturinn sýnist dimmblár undir heiðum himni vegna þess hve mikið af bláu ljósi frá himni endurkastat.


Hér að ofan er sagt að ljós sólarinar sé hvítt en samt sem áður virðist okkur hún vera ljósgul. Það er vegna þess að ljósið tapar hluta bláu geislanna á leið sinni til jarðar. Við Sólarupprás og sólarlag fer ljósið enn lengri leið gegnum lofthjúp Jarðar og þá tapar það enn meiru af bláu en um hádegi.


Í fjarlægð virðast okkur fjöllin blá og það er vegna þess að við erum þá að horfa í gegnum þykkt lag af lofti sem dreifir stöðugt bláu ljósi líkt og þegar horft er upp í heiðan himininn. ◊.