grös: plöntur sem teljast til ættarinnar [Poaceae], staraættarinnar [Cyperaceae] og sefættarinnar [Juncaceae]. Eiginleg grös teljast þó aðeins 8 til 10 þúsund tegundir áður nefndu ættarinnar [Poaceae].
Fyrstu ótvíræðu steingervingar um tilvist grasa eru frá mörkum paleósen og eósen en margt bendir til að þau hafi verið komin fram á krít. Plöntusteinar í steingerðri mykju risaeðla sem lifðu fyrir ≈ 71 Má benda til þessa.
Velgengni grasa felst í líkamsbyggingu þeirra og lífeðlisfræðilegri fjölbreytni. Grösum er gjarna skipt í tvö hópa, C3 og C4, eftir því hvernig þau binda kolefni. C4 grös búa yfir ljóstillífunarferli sem felst í sérhæfðri líffærafræði laufblaðanna og sem að hluta aðlagar þau að heitu loftslagi.
Styrkur 13C í fornum jarðvegi og tönnum grasbíta eykst verulega fyrir 6 – 7 Má. Þetta bendir til þess að breytingar á grasaflórunni verði á þessum tíma og C3- gras víki fyrir C4-grasi en það síðarnefnda dregur mun hærra hlutfall 13C til sín en C3-gras. ◊