Flestir jöklar taka breytingum í takt við veðurfarsbreytingar en framhlaup er það kallað þegar jöklar ganga sem kallað er og hlaupa fyrirvaralaust fram með miklum hraða og látum. Við þessar hamfarir krossspringa jöklarnir og skjóta jökulsporðinum fram um marga kílómetra. Skriðhraðinn í framhlaupunum getur þá orðið tugir metra á dag. Ekki hafa orsakir framhlaupa verið skýrðar á viðunandi hátt en margt bendir til þess að fyrir framhlaupin hafi skrið íss frá safnsvæði til leysingasvæðis raskast. Fyrir framhlaupin virðist ísinn í leysingasvæðinu vera kyrrstæður gagnstætt virkum og skríðandi ísnum í safnsvæðinu. Jökullinn skýtur þá upp kryppu á safnsvæðinu. Hann hreyfist ekki nægilega hratt til þess að bera fram þann snjó sem safnast á hann og verður hann því brattari með hverju ári. Við það eykst spennan undir jöklinum og svo fer að vatnsrásir undir honum eyðileggjast. Vatnið hættir að renna fram greiðlega í örfáum vatnsrásum en breiðir þess í stað úr sér undir jöklinum. Við aukinn vatnsþrýsting minnkar viðnám íssins við berggrunninn og jökullinn hleypur fram. Þegar framhlaupið hefst færast mörkin milli virka og staðnaða íssins svo hratt fram að ísinn brotnar upp og hrynur fram í miklum hamförum. Framhlaup verða aðeins í þeim jöklum sem ekki ná að bera fram snjóinn sem á þá safnast.
Mörg framhlaup í íslenskum jöklum eru þekkt. Má þar nefna Brúarjökul sem hljóp fram um 5 - 10 km 1980 og hlaup í Hagafellsjöklum í Langjökli þar sem hlaupið náði til um 300 km2 spildu í jöklinum. ◊ ◊