Feldspatar eru algengasta bergmyndunarsteindin í jarðskorpunni. Þeir eru um 60% allra bergmyndunarsteinda í meginlandsskorpunni og auk þess eru þeir mjög algengir í bergi úthafsskorpunnar t.d. hér á landi.
Gerð feldspata er afar flókin og margbreytileg. Bæði getur verið um að ræða kalínfeldspata [K(Si2,Al)O8], natrínfeldspata [Na(Si2,Al)O8] (albít) og kalsínfeldspata [Ca(Si2,Al2)O8] (anortít). Kalín- og natrínfeldspatar eru oft kallaðir alkalífeldspatar. Þeir eru einkum algengir í súru storkubergi eins og graníti og myndbreyttu bergi. Þekktastir þeirra eru ortóklas og mikroklín. Ortóklas er yfirleitt hvítt í rýólíti en gráleitt eða ljósrautt í graníti. Mikróklín finnst oft í svokölluðu pegmatíti sem er stórkristallað berg er myndast úr kvikuvessum og kvikugufum við útjaðra kólnandi berghleifa. Við þessar aðstæður geta mikróklínkristallarnir orðið allt að 2000 tonn að þyngd og eru þeir stærstu kristallar sem þekkjast. Alkalífeldspatar mynda kaólínleir þegar þeir veðrast í heitu og röku loftslagi en hann er mikilvægt hráefni til postulínsgerðar, til fyllingar í gúm og gæðapappír fyrir litprentun. Báxít sem súrál er unnið úr myndast við veðrun bergs með álríkum steindum.
Plagíóklas er samheiti fyrir natrín- og kalsínríka feldspata og blöndu þeirra. |T| Þeir eru jafnvel algengari en alkalífeldspatar og algengastir steinda í storkubergi. Plagíóklas og pýroxen mynda allt að 80 - 90% íslensks basalts. Í íslensku storkubergi mynda plagíóklasarnir oft díla og eru þeir t.d. mjög algengir í Þjórsárhrauni. ◊
Algengt er að byggja flokkun storkubergs á gerð og magni plagíóklasa og er berg sagt basískt ef meira en 50% af Ca-feldspötum (anortíti) er í plagíóklösunum. Skyggða svæðið á þríhyrningslínuritinu ◊ sýnir hvar K-, Na- og Ca-innihald feldspata í íslensku bergi liggur.
Fjölbreytni feldspata byggist m.a. á því hversu auðvelt Ca+2 og Na+ eiga með að koma í stað hvers annars í kristalgrindinni. Skýringin á þessu er sú að þessar tvær jónir eru álíka stórar en hins vegar er K+ miklu stærri (sbr. mynd ◊ ) og getur því ekki eins auðveldlega gerst staðgengill hinna tveggja. Að vísu hafa Ca+2 og Na+ mismunandi hleðslu og þess vegna verður ál að koma í stað kísils. Jónaparið (Ca+2 og Al+3) getur því bæði hvað stærð og hleðslu varðar gerst staðgengill (Na+ og Si+4) og komið sér fyrir í kristalgrindinni.
Sjá ennfremur helstu bergmyndunarsteindir jarðskorpunnar.