Breiðamerkurjökull er mikill skriðjökull suður úr Vatnajökli  austan Öræfajökuls. Hann skríður suður á Breiðamerkursand á milli Breiðamerkurfjalla í vestri og fjallaklasa í austri sem syðst heita Fellsfjöll og nyrst Innri Veðurárdalsfjöll. Jökullinn skefur jökulskerin Mávabyggðir og Esjufjöll og frá þeim ber hann með sér urðarrendurnar Mávabyggðarönd og Esjufjallarönd. ◊.


Íssjármælingar sýna að jökullinn sverfur djúpt í berggrunnin og hefur Breiðamerkurjökull grafið „fjörð“ undir svokölluðum Austurstraumi sem skríður fram á milli Esjufjalla og Innri Veðurárdalsfjalla. sem áður er getið. Jökullinn hefur hopað hratt frá því er hann náði nánast til sjávar 1903 og við það hafa myndast Breiðárlón og Jökulsárlón sem er stærst og stækkaði raunar mjög haustið 1990 er það sameinaðist Stemmulóni og Veðurárlóni sem eru austar á Sandinum.


Mælingar á árunum 1997 til 1999 sýndu ísskriðhraða sem nemur 258 m á ári niður að lóninu en á sama tíma brotnaði af jökulsporðinum í lóninu um 582 m á ári svo að jökulsporðurinn hopaði 324 m á ári og skilaði 260 · 106 m3 af ís í lónið á ári.


Kortin frá 1903, 1980 og 2015 sýna vel hörfun jökulsins ◊. og einnig má sjá á tölvumyndinni að jökulrofið hefur myndað djúpan fjörð sem gengur langt inn undir íshelluna.



Til baka í Vatnajökul.



Heimildir: Helgi Björnsson, Finnur Pálsson & Sverrir Guðmundsson 2001: Jökulsárlón at Breiðamerkursandur, Vatnajökull, Iceland: 20th century changes and future outlook, Jökull # 50.
  Hjörleifur Guttormsson 1993: Við rætur Vatnajökuls, Árbók ferðafélags Íslands.